Leigubifreiðar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:44:51 (6204)


[18:44]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Tilgangur þessa frv. er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989, til samræmis við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. júní sl. vegna kæru Sigurðar Á. Sigurjónssonar leigubifreiðastjóra á hendur íslenska ríkinu vegna skyldu hans sem leigubifreiðastjóra til að vera í Bifreiðastjórafélaginu Frama. Dómurinn taldi ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem skylda leigubifreiðastjóra til að vera í einu og sama félagi þar sem takmörkun er í gildi, brjóta gegn 11.

gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem ákvæðið verndi einnig rétt manna til að vera utan félags.
    Í 1. mgr. 11. gr. sáttmálans segir að menn hafi rétt til að mynda félög, þar á meðal stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Í ákvæðinu felst einnig réttur til að vera ekki í félagi, þ.e. svokallað neikvætt félagafrelsi og því fari ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem kveða á um að til að fá eða halda atvinnuleyfi þurfi aðild að Frama, félagi leigubifreiðastjóra, gegn 1. mgr. 11. gr. sáttmálans. Jafnframt er vísað til ýmissa sáttmála og samþykkta alþjóðastofnana er vernda neikvæða félagafrelsið.
    Í 2. mgr. 11. gr. sáttmálans er kveðið á um að réttur þessi skuli ekki háður öðrum takmörkunum en lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilbrigði eða siðgæði, eða réttindum eða frelsi annarra. Dómurinn telur að skylduaðild að Frama hafi verið komið á með lögum og ætlunin hafi verið að vernda réttindi annarra bílstjóra en dregið verði í efa hvort nauðsyn hafi borið til að kveða á um skylduaðild þegar borið sé saman annars vegar réttindamissir og þvingun kæranda og hins vegar hagsmunir tengdum hlutverki Frama við framkvæmd og eftirlit með leiguakstri.
    Frv. þetta er samið í samgrn. og í samráði við hagsmunaaðila. Helstu breytingarnar eru þessar:
    Í fyrsta lagi er afnumin skylda bifreiðastjóra til að vera í einu og sama stéttarfélagi á þeim svæðum þar sem heimiluð hefur verið takmörkun á fjölda bifreiða sem nota á til leiguaksturs.
    Í öðru lagi er lagt til að í stað þess að takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða á einstökum félagssvæðum sé framkvæmd af félögunum sjálfum verði hún framkvæmd af sérstökum umsjónarnefndum.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að fella takmörkun úr gildi ef að meira en 1 / 4 hluti atvinnuleyfishafa á viðkomandi félagssvæði gengur úr stéttarfélaginu sem óskaði takmörkunar, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Það hefur verið meginefni laga um leigubifreiðar að fjalla um heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða á félagssvæðum viðkomandi stéttarfélaga bifreiðastjóra en þetta á við um fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þróun mála hefur orðið misjöfn eftir því hvaða flokk bifreiða er um að ræða.
    Félög vörubifreiðastjóra hafa í flestum tilvikum notið takmörkunar og skv. 7. gr. reglugerðar nr. 121/1990 um vörubifreiðar og sendibifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra, hefur takmörkun verið ákveðin á félagssvæðum 28 vörubifreiðastjórafélaga.
    Sú starfsvernd sem vörubifreiðastjórar hafa notið á grundvelli þessara laga og reglna hefur aðeins verið bundin við leiguakstur á vörubílum af hefðbundinni gerð og tekur ekki til verktakastarfsemi á sviði flutninga. Sendibifreiðastjórar hafa í mjög fáum tilvikum notið takmörkunar þar sem stéttarfélög þeirra hafa yfirleitt ekki óskað eftir takmörkun. Þó njóta þrjú félög sendibifreiðastjóra takmörkunar en það er á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Vestmannaeyjum, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 121/1990.
    Í takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða felst að öllum utanfélagsmönnum hefur verið bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á vörum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989. Takmörkunin hefur verið framkvæmd með þeim hætti að í reglugerð er ákveðin hámarkstala vörubifreiða og sendibifreiða á viðkomandi félagssvæði. Nýir félagar hafa síðan verið teknir inn í stað þeirra sem hætta störfum og félagið auglýst eftir umsóknum um félagsréttindi til að fylla töluna á ný, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 121/1990. Það eru því félögin sjálf sem ráðið hafa hverjir bætast við í stéttina og öðlast rétt til að stunda leiguakstur á þess sviði.
    Í frv. þessu er miðað við að sama fyrirkomulag verði áfram í málefnum vöru- og sendibifreiðastjóra. Hins vegar verður framkvæmd takmörkunar ekki lengur á hendi viðkomandi stéttarfélags þar sem bifreiðastjórum er hér eftir heimilt að stofna ný félög eða standa utan félaga.
    Miðað er við að sama fyrirkomulag verði áfram í málefnum vöru- og sendibifreiðastjóra. Hins vegar verður framkvæmd takmörkunar ekki lengur á hendi viðkomandi stéttarfélags þar sem bifreiðastjórum er hér eftir heimilt að stofna ný félög eða standa utan félaga. Miðað er við að taka upp sama hátt og við takmörkun á fjölda fólksbifreiða og að skipaðar verði sérstakar umsjónarnefndir sem annist útgáfu atvinnuleyfa, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins skal skipa umsjónarnefnd sendibifreiða á þeim svæðum þar sem takmörkun hefur verið ákveðin. Skipan hennar og starfssvið skal vera með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða skv. 10. gr. laganna. Nefndin er skipuð þremur mönnum, þar af skal einn tilnefndur af stéttarfélagi eða stéttarfélögum sendibifreiðastjóra sameiginlega.
    Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins skal skipa eina umsjónarnefnd vörubifreiða fyrir landið allt sem annast m.a. útgáfu atvinnuleyfa á þeim svæðum þar sem takmörkun hefur verið ákveðin. Nefndin skal vera þriggja manna, einn frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og formann hennar skipar ráðherra án tilnefningar. Starfssvið hennar er að öðru leyti með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða skv. 10. gr. laganna.
    Fjöldi fólksbifreiða er nú takmarkaður á fimm stöðum á landinu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Takmörkun er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa til einstakra leigubifreiðastjóra sem sérstakar umsjónarnefndir annast. Þetta atvinnuleyfakerfi hefur nú staðið í áratugi og er orðið mjög fast í sessi. Til þess að koma þessu takmörkunarkerfi á þurfti í upphafi að liggja fyrir beiðni frá viðkomandi stéttarfélagi, síðan þurfti atbeina félagsins til þess að halda kerfinu við. Jafnframt var til þess

ætlast að allir atvinnuleyfishafar á viðkomandi félagssvæði væru meðlimir félagsins og að lokum var félagsaðildin lögbundin. Með því átti meðal annars að tryggja að félagið væri í fyrirsvari fyrir alla stéttina.
    Eftir brottfall skylduaðildar er engin trygging fyrir því að meiri hluti atvinnuleyfishafa verði félagsmenn í stéttarfélaginu sem bað um takmörkunina og annast hefur framkvæmd hennar að hluta. Til þess að halda takmörkunarkerfi við á tilteknu svæði, breyta því eða fella það niður er óhjákvæmilegt að þekkja vilja stéttarinnar sem á hlut að máli. Það verður ekki gert nema að verulegur hluti atvinnuleyfishafa á svæðinu séu félagar í stéttarfélaginu. Því er lagt til í frumvarpinu, auk afnáms skylduaðildar, að heimilt sé að fella takmörkun á fjölda bifreiða úr gildi ef meira en fjórðungur atvinnuleyfishafa kýs að standa utan félagsins sem óskaði takmörkunar.
    Í 1. mgr. 3. gr. frv. er lagt til að ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1989 verði felld brott en það kveður á um skyldu bifreiðastjóra í sömu grein til að vera í einu og sama stéttarfélagi. Þessi skylda hefur aðeins náð til bifreiðastjóra í hverjum flokki bifreiða á þeim svæðum þar sem takmörkun er í gildi. Verði þetta frv. að lögum geta þeir gengið úr félaginu, sem bað um takmörkun, og verið utan félags eða stofnað nýtt félag.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fjölyrða meira um einstakar greinar frv. en vísa til ítarlegrar greinargerðar og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.