Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 13:48:53 (6209)



[13:48]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta lagafrv. sem hæstv. félmrh. mælir hér fyrir sýnir okkur inn á hvaða spor við erum komin í lagasetningu hér á Alþingi, er enn eitt dæmið um það hvernig mönnum er ætlað að bregðast við skuldbindingum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og afgreiða hér á færibandi á Alþingi Íslendinga breytingar á þeim ákvörðunum sem teknar eru í Brussel. Hæstv. félmrh. hafði reyndar fyrir því að tala hér í framsögu sinni álíka lengi, eða líklega nærri fimm mínútur, álíka lengi og hæstv. settur utanrrh. mælti fyrir 489 samþykktum Evrópubandalagsins eða eitthvað nálægt 500 samþykktum hér sl. föstudag, en þá heiðraði hann Alþingi með því að slöngva þeim hér inn í þingið með fimm mínútna ræðu.
    Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. í sambandi við þetta mál hvort ekki sé hugmyndin að standa við ákvæði laga og hefðir um að það fylgi svona frumvörpum kostnaðaryfirlit. Ég sé það ekki með þessu.

Venjulega er það sem fylgiskjal á eftir en ég sé það ekki hér. Það kann að vera að leynist einhvers staðar í þessum texta en þá væri rétt að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hvað félmrn. áætlar að það kosti að standa við þessi lagaákvæði. Ef ráðuneytið hefur ekki fylgt þessu eftir þá sýnist mér að ekki sé rétt að ljúka þessari umræðu án þess að slíkt yfirlit liggi fyrir frá ráðuneytinu.