Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:11:37 (6221)

[14:11]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Mér er það ljóst að sá er munur á því máli sem forseti hyggst taka fyrir og því máli sem ég á að mæla fyrir, 15. dagskrármáli, að annað er þingmannamál og hitt er stjfrv. Engu að síður þykir mér rétt að halda því fram að það mál eigi að hljóta jafneðlilegan framgang og dagskrá gefur tilefni til. Ég vil minna forseta á það að mér til nokkurrar undrunar var umræðu um þetta sama mál frestað sl. mánudag þegar að því var komið og ráðrúm að taka það fyrir. Þá tjáði forseti mér að það hefði verið gert að ósk flm. málsins. Mér var ókunnugt um það en hef kannað það mál síðan og flm. málsins hefur tjáð mér að hann hafi ekki óskað eftir því. Mér þætti því vænt um ef hægt væri að taka málið fyrir og hefja umræðuna og koma þannig í veg fyrir að frekari dráttur en þegar er orðinn verði á því að mál þetta sé tekið fyrir.