Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:23:38 (6226)


[14:23]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Hér eru til umfjöllunar þrjú frv. er snúa öll að lögum nr. 77 frá 1989, um leigubifreiðar. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v. að þessi mál eru um margt mjög ólík.
    Í fyrsta lagi ætla ég að gera hér grein fyrir afstöðu minni varðandi frv. hv. þm. Svavars Gestssonar, sem gerir ráð fyrir breytingum á skipulagi úthlutunarnefndar. Ég get fyrir mitt leyti fallist á að skynsamlegt sé að gera þá breytingu sem þar er lýst af þeirri ástæðu að það hlýtur að teljast óeðlilegt að sú nefnd sé einvörðungu skipuð pólitískum fulltrúum og ekki síst ætti það að vera hæstv. samgrh. ljóst í ljósi þeirrar umræðu sem hér átti sér stað í gær um ferðamálaráð og skipun þess. Þannig að ég trúi ekki öðru en hæstv. samgrh. geti fallist á þá breytingu sem þar er lögð til.
    Varðandi frv. á þskj. 824, þar sem 1. flm. er hv. þm. Björn Bjarnason. Það er nú svo að enginn af hv. flm. er viðstaddir þessa umræðu ( StG: En skynsamlegt.), sem er jú rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. mjög skynsamlegt, að vera ekki viðstaddir þá umræðu.
    Það frv. snýr að mínu viti að þjónustu þeirri er leigubílstjórar og leigubílstjórastöðvarnar eiga að veita sínum farþegum og því öryggi er farþegarnir þurfa að hafa með því að setjast upp í leigubíla.
    Ég er andvígur því sem kemur fram í grg. frv. að það sé hægt að líkja saman annars vegar bifreiðastjórum leigubíla og hins vegar bifreiðastjórum vörubifreiða eða rútubifreiða. Þar er ólíku saman að jafna og eins og fram kom við umræðuna í gær þá tryggir atvinnuleyfið að það er enginn sem í raun og veru getur stöðvað fullorðna menn sem oft og tíðum eru kannski alls ekki færir um að aka atvinnutæki sem þessu í því að halda vinnu sinni áfram því atvinnuleyfið tryggir þeim þennan rétt nema það sé sérstaklega tekið fram í lögum er gilda um atvinnuréttindi að það skuli vera tímabundið, eins og það er reyndar nú. Að mínu viti var samstaða á sínum tíma um að koma skyldi fyrir í lögum og því ástæðulaust að breyta því hér og nú. Það er því að mínu viti óskynsamlegt sem hér er lagt til að það séu engin aldurstakmörk á því hversu lengi menn mega aka leigubifreiðum.
    Varðandi stjfrv., sem er 514. mál þingsins á þskj. 794, þá er það fyrst og fremst komið fram vegna dóms Mannréttindadómstólsins og þeirra afleiðinga sem sá dómur hefur haft. Þegar hins vegar --- nú veit ég ekki hvar hæstv. samgrh. er, jú, hér kemur hann í þingsalinn --- opinbert stjórnvald er knúið til með þessum hætti að leggja fram breytingar á gildandi lögum þá skiptir auðvitað miklu máli að menn vandi mjög vel til í þeim málatilbúnaði. Og þegar um er að ræða jafnviðkvæman málaflokk eins og leiguakstur er, þegar slík umfjöllun fer fram, þá þarf auðvitað að mínu viti það opinbera stjórnvald sem þar hefur forgöngu hverju sinni að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi atvinnuréttindin og það starfsöryggi sem leigubílstjórum í þessu tilfelli er búið. Í öðru lagi þá þjónustu sem gert er ráð fyrir að leigubílstjórar, með sínum atvinnutækjum, veiti almenningi, en um leið þarf auðvitað að gæta að því hversu mikið öryggi slík þjónusta hefur og að hvaða leyti menn eru í stakk búnir til að veita þjónustuna og það öryggi sem borgararnir verða að krefjast.
    Í frv. sem hæstv. samgrh. leggur hér fram þá eru að mínu viti báðir þessir þættir, þ.e. atvinnuréttindin og starfsöryggi leigubílstjóranna, og svo hitt, öryggið og sú þjónusta sem almenningur á að vænta af leigubílum, sniðgengnir. Það er auðvitað mjög alvarlegt að það skuli gerast. Það gerist með þeim breytingum sem lagðar eru til á 4. gr. gildandi laga en er 2. gr. þess frv. sem hér er til umfjöllunar.
    2. gr. opnar í raun og veru fyrir það að leigubílstjórar sem stunda sitt starf sem aðalstarf í dag geta tæpast gert það ef þessi breyting nær fram að ganga og fullyrða, að ég held, að þetta verði ekki aðalstarf nokkurs manns eftir að þessi breyting nær fram að ganga og felldar úr gildi þær takmarkanir sem núna eru.
    Í öðru lagi er alveg ljóst að það er mikil hætta á að misgóðir menn ráðist til starfa á leigubíla, a.m.k. hafa samtök þeirra enga möguleika á að fylgjast með því hvaða menn það eru sem til þessara starfa ráðast. Þegar svo er komið að leiguakstur, sem er mjög mikilvæg þjónusta við almenning, er orðinn hjáverk einstakra manna þá er eins og fram hefur komið við þessa umræðu hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. hætta á því að um svarta atvinnustarfsemi geti orðið að ræða. Og auðvitað á opinbert stjórnvald aldrei með sínum aðgerðum að stuðla að slíku eða ýta undir að slíkt geti gerst.
    Nú hefur Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra bent hæstv. samgrh. á að það væri hægt að ná samkomulagi um þetta mál og tryggja þá þætti sem mikilvægastir eru, þ.e. atvinnuréttindi og starfsöryggi leigubifreiðastjóra og svo hitt að þjónusta við almenning gæti orðið með þokkalegum hætti. Ef hæstv. ráðherra hefði farið að tillögum Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra sem hæstv. ráðherra voru sendar mjög fljótlega eftir, ef ég veit rétt, að dómur Mannréttindadómstólsins gekk fram. Ég vil hér í því plaggi er hæstv. ráðherra var sent, með leyfi forseta, vitna í þær upplýsingar er hæstv. ráðherra voru sendar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að benda á afstöðu Mannréttindadómstólsins til nauðsynjar þess að eftirlit sé með leiguakstri á fólki. Í upphafi 2. mgr. 41. gr. dómsins segir:
    ,,Dómstóllinn vefengir ekki að Frami hafi gegnt hlutverki sem þjónaði ekki aðeins atvinnuhagsmunum félaga sinna heldur einnig almenningshagsmunum og skylduaðild sérhvers atvinnuleyfishafa á félagssvæðinu hafi auðveldað umrædda eftirlitsstarfsemi. Dómstóllinn er hins vegar ekki sannfærður um að skylduaðild að Frama hafi verið nauðsynleg til að félagið gæti gegnt þessu hlutverki.``
    Því leggur Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra til að á frv. samgrh. verði gerðar eftirfarandi efnisbreytingar: Á 6. gr. en hún nær til 5. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar.``
    Og þannig er tillaga Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra, með leyfi forseta:
    ,,Félag bifreiðastjóra á hverju atvinnusvæði sem í eru minnst 3 / 4 allra atvinnuleyfishafa verði falið að annast undanþágu frá rekstri eigin bifreiða í samráði við umsjónarnefnd leigubifreiða. Ef ekkert félag bifreiðastjóra nær tilskilinni stærð skuli sveitarstjórnir skipa þriggja manna nefnd sem gegni hlutverki félagsins. Allir atvinnuleyfishafar geta áfrýjað ákvörðun til umsjónarnefndar enda er það skilyrði að félagsmenn jafnt sem utanfélagsmenn njóti jafnræðis varðandi undanþágur frá akstri.``
    Og nú spyr ég hæstv. samgrh.: Hvers vegna leitaði samgrh. ekki samkomulags við Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra um efni þessa frv. þannig að hér hefði náðst bærileg samstaða og lagt hefði verið fram frv. sem samstaða hefði verið um?