Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:36:21 (6228)


[14:36]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna alveg sérstaklega því sem hæstv. samgrh. lýsir hér yfir, að hans meiningar séu ekki mjög stífar í þessum efnum og hann sé þar af leiðandi ekki tilbúinn til þess og hafi haft um það samráð við hv. formann samgn. að gera ýmsar breytingar á frv. og ég fagna því.
    Aftur kemur mér hitt mjög á óvart ef hæstv. ráðherra hefur haft svo náið samstarf við forustumenn leigubifreiðastjóra að þeir séu orðnir stuðningsmenn frv. eins og það liggur hér fyrir. Það kemur mér á óvart af þeirri ástæðu að ég hef átt, ásamt fleiri þingmönnum Framsfl., viðræður við marga þessara ágætu manna og það kæmi mér á óvart ef þeirra afstaða hefði breyst svo á síðustu klukkustundum að þeir væru farnir að styðja málið, eins og ég skildi hæstv. ráðherra hér áðan, en nú kann það að vera misskilningur.