Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:08:36 (6233)



[15:08]
     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einkennileg árátta hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vilja alltaf hafa vit fyrir öllum í öllu. (Gripið fram í.) Og það er líka einkennilegt hvað hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er bundinn miðstýringargrautnum. Þó hann puffi og sveii þá er það ekki nema til að undirstrika það sem ég hef sagt um hans vinnubrögð í þeim efnum.
    Hann vék að tillögu sem við nokkrir þingmenn höfum lagt fram í þessu sambandi til að tryggja það að leigubifreiðastjórum sé ekki mismunað. Svo langt nær sú tillaga. Þingmaðurinn vék að því að í rauninni ætti lagasetning á Alþingi að miðast við tímabundinn vanda, atvinnuleysið sem nú er í landinu. Við getum ekki reiknað með því að lagasetning á Alþingi Íslendinga miðist við slíkar aðstæður. Það hlýtur að þurfa að hugsa til lengri tíma og ekki tjalda til einnar nætur.
    Það frv. sem við höfum lagt fram varðandi breytingu á einfaldlega að tryggja mönnum að þeir sitji við sama borð. Það ákvæði 9. gr. sem vitnað hefur verið til á ekki við vörubifreiðastjóra eða sendibifreiðastjóra og það á ekki heldur við fólksbifreiðastjóra á bifreiðum fyrir átta farþega eða færri sem aka á svæðum þar sem takmörkun skv. 4. gr. hefur ekki verið beitt. Þá á það heldur ekki við bifreiðastjóra langferðabifreiða. Af þessu er ljóst að ákvæðið mismunar gróflega þeim bifreiðastjórum sem það á við samanborið við aðra atvinnubifreiðastjóra.
    Það er um það sem málið snýst og ég vona að hv. þm. kynni sér hvað felst í frv. og þá reikna ég með að hann geti verið sammála því.