Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:13:12 (6235)


[15:13]
     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki að spyrja að orðheldni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem lofaði því í ræðustól að ætla ekki að hafa vit fyrir Árna Johnsen en sagði svo hálfri mínútu síðar að það væri óskynsamlegt af Árna Johnsen að vekja athygli á því máli sem hér væri um að ræða. Alltaf hittir nú hv. þm. sjálfan sig fyrir í málflæðinu.
    Ég ætla aðeins að víkja að atriði sem hv. þm. talaði svolítið um, virtist leggja kapp á það að mönnum yrði kippt út af atvinnumarkaði sem yngstum og vék þar að flugumferðarstjórum og flugmönnum. Það er mín skoðun að það sé úrelt á þröskuldi framtíðarinnar að knýja menn til að láta af störfum þó að þeir séu komnir um sjötugt. Við búum við þær reglur að hluta til enn þá, en það er úrelt og hlýtur að breytast. Það hlýtur að þróast þannig með vonandi vaxandi hagvexti og auknu atvinnulífi að menn fái færi til þess að vinna lengur ef þeim sýnist svo fremi að starfsþrek sé til staðar og alveg ljóst að gamla máltækið að vinnan göfgi manninn stendur í fullu gildi.
    Ég vildi rétt svona koma þessu á framfæri til mótvægis við skoðun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það eigi að kippa mönnum sem fyrst út af atvinnumarkaði til þess að liðka fyrir þeim sem eru á yngri árum. ( Gripið fram í: Það er búið að kippa 7.500 manns út af vinnumarkaðinum.)