Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:36:29 (6239)


[15:36]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég skal fúslega verða við þeirri beiðni að segja álit mitt á þeim tillögum sem hér liggja fyrir og fara nokkrum orðum um þessi mál.
    Það er hv. þm. kunnugt að þetta stjfrv. um leigubifreiðar er flutt vegna þess dóms sem gekk í Mannréttindadómstólnum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt samningnum og niðurstaðan varð sú að leigubifreiðastjórum væri ekki skylt að vera í stéttarfélögum. Þetta þekkja menn.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hljóti að vera mikið álitamál hvernig eigi að skipa málum eins og þeim hverjir skulu hafa heimildir til þess að aka leigubifreiðum á tilteknum svæðum, til hvers nauðsynlegt sé að taka tillit og þar fram eftir götunum. Það er alveg ljóst að það getur enginn einn sannleiki verið til í því máli. Það eru mörg álitamálin og hægt að standa að þessum málum með mjög mismunandi hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki rétt að það sé algjörlega opið og frjálst og öllum heimilt að aka leigubifreiðum hvar sem er og hvenær sem er og tel þess vegna nauðsynlegt að einhver skipan sé á þeim málum. Eins og fram kemur í stjfrv. sem hér liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir að breyta frá þeim reglum sem nú gilda um það hverjir skuli skipa þá nefnd er hafi með höndum eftirlit og úthlutun á atvinnuleyfum.
    Ég sé að á þskj. 915 hafa hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon flutt tillögu um að hafa aðra skipan á þar sem þeir óska eftir því að í stað þess að ráðherra skipi formann nefndarinnar skuli formaður skipaður samkvæmt sameiginlegri tillögu viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórnar og hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra. Ef sú leið verður farin að þessi mál verða algjörlega í höndum sveitarfélaganna og leigubílstjóranna á tilteknu svæði þá er auðvitað einlægast að ráðherra komi ekkert að málinu. Ég sé ekki hvaða nauðsyn er á því að ráðherra skipi yfir höfuð nefnd sem hann hefur ekkert um að segja hverjir sitja og á ekki að ráða einum einasta manni. Það er auðvitað skynsamlegast að nefndin starfi á ábyrgð þess sem hana skipar. Annaðhvort að félög leigubílstjóra taki alfarið að sér eftirlit, skipulag og stjórn þessara mála og verði falið að gera það í samvinnu við og ásamt sveitarfélögunum. Það má auðvitað færa viss rök fyrir því að það sé eðlilegt að ráðherra standi fjær þessum málum en nú er. Mér finnst allt vera opið í þeirri umræðu. Það má meira að segja líka hugsa sér það að fella niður ákvæði um ákveðinn tiltekinn fjölda leigubifreiðastjóra og hafa það alveg opið ef menn vilja ganga þessa leið til enda. Auðvitað er hægt að hugsa sér það líka.
    Ég hef á hinn bóginn í frv. sem ég hef lagt fram ekki lagt til svo róttækar breytingar en ég get séð það vel fyrir mér að sveitarfélögin taki þennan þátt algjörlega til sín með félögum atvinnubílstjóra en Alþingi setji hinar almennu leikreglur.
    Ef við síðan veltum fyrir okkur hinu frv. sem lýtur að aldri leigubifreiðastjóra, hvort rétt sé að takmarka hann við 70 ár eða ekki, þá get ég rifjað það upp að ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að bæði ég og formaður samgn. nú, hv. þm. Pálmi Jónsson, greiddum atkvæði gegn þessu ákvæði þegar það var lögfest á Alþingi á sínum tíma 1989 þar sem okkur þótti það skref sem stigið var hikandi og þar sem ekki var mörkuð almenn regla. Það hefur verið mjög gagnrýnt af ýmsum að leigubifreiðastjórar skuli þurfa að hætta þegar þeir verða 70 eða 71 árs. Það eru skiptar skoðanir um það innan stéttarinnar. Sumir hafa bent á það að í einu nágrannalanda okkar, ég man ekki hvort það er Danmörk, er því slegið föstu af löggjafanum að meirapróf falli úr gildi þegar viðkomandi verður sjötugur. Þá gengur eitt yfir alla. Þá þarf ekki undan því að kvarta. Aðrir hafa bent á að óeðlilegt sé að þessi aldursmörk gildi einungis um leigubílstjóra á þeim svæðum þar sem um takmörkun er að tefla en ekki annars staðar og hafa bent á að hópferðabílstjórar, áætlunarbílstjórar og bílstjórar sem aka vörubifreiðum megi verða eldri en sjötugir þó svo það sé bannað við fólksflutninga á höfuðborgarsvæðinu.
    Einn hv. þm. vék meira að segja að því að það væri erfiðara að aka vörubifreiðum og bætti því við að reynslan sýndi að bifreiðastjórar hættu áður en þeir næðu sjötugsaldri og taldi af þeim sökum að löggjöfin væri óþörf um að þetta aldursákvæði næði einnig til vörubifreiðastjóra. Það má þá líka segja að það

skaði ekki þótt slík löggjöf sé sett ef hún engan varðar og engan snertir.
    Mér finnst þetta því vera mikið álitamál. Ég hef fundið mikinn þrýsting frá atvinnubílstjórum í báðar áttir. Fjölmargir þeirra telja nauðsynlegt að Alþingi með því að staðfesta þessa skipan tryggi vissa endurnýjun í stéttinni og færa fram margvísleg rök fyrir því. Aðrir telja að þeir eigi að hafa rétt til þess að starfa lengur en til sjötugsaldurs og þeirra höfuðrök fyrir þeim málflutningi eru að lífeyrissjóðir þeirra séu ónógir og þess vegna sé nauðsynlegt fyrir þá í ellinni að gera annað tveggja, að hafa heimild til að aka leigubílnum eða gera hann út. Þarna erum við að tala um álitamál. Sumir vilja halda því fram að rétt sé að leyfa eftirlifandi maka t.d. að gera út atvinnuleyfi maka síns svo áratugum skiptir sem auðvitað hlýtur að vera á kostnað hins sem er kallaður launþegi eða ekur fyrir annan og skerða möguleika hans til þess að skapa sér sjálfstæða stöðu í þessari stétt.
    Ég held að öll þessi álitamál gefi tilefni til mikilla vangaveltna, skoðanaskipta og umræðna. Það má vel gagnrýna að þetta frv. skuli ekki fyrr fram komið. Þessi mál hafa verið lengi í deiglunni og menn eru að velta fyrir sér hvaða skipan skynsamlegast sé að hafa á þessum málum, bæði í bráð og lengd. Ég hef sagt og veit að samgn. líka er opin fyrir breytingum á þessu frv., að taka inn nýja þætti ef það er talið skynsamlegt. Ég hygg á hinn bóginn að það sé alveg ljóst að alþingismenn muni sem hópur ekki geta orðið sammála um neina þá niðurstöðu sem öllum þykir einhlít og er það að sjálfsögðu ekki bundið við flokka. Þess vegna var þegar frv. var lagt fram, þó það væri stjórnarfrumvarp, ævinlega ráð fyrir því gert að stjórnarþingmenn hefðu um það óbundnar hendur hvaða afstöðu þeir tækju til þess enda eru ríkisstjórnir ekki myndaðar um breytingar á löggjöfum leigubíla.
    Ég heyrði að einhver var að láta í ljósi undrun yfir því að ekki væru allir stjórnarsinnar bundnir í báða skó í þessu máli en það hefur aldrei hvarflað að mér að reyna að gera slíkt. Einungis vegna þess að ég var spurður vil ég leggja áherslu á þetta. Í fyrsta lagi eru rök fyrir því að aldursmörkin 70 ár gildi um alla atvinnubílstjóra. Það hefur komið fram gagnrýni um að nauðsynlegt sé að hafa það þannig. Í öðru lagi hefur verið á það bent að nauðsynlegt sé að hafa þetta ákvæði sérstaklega inni varðandi leigubíla, og það kom fram í umræðum í dag frá einum hv. þm., til þess að hið opinbera tæki af skarið um að ekki væri ætlast til þess að þessi þjónusta væri innt af hendi af eldri mönnum og hin opinberu afskipti kæmu fram með þeim hætti.
    Enn aðrir telja að leigubílstjórar og bílstjórar almennt eigi að fá að aka svo lengi sem þeir sjálfir treysta sér til en þá er líka að rifja það upp að ástæðan fyrir því hygg ég að forveri minn beitti sér fyrir því að þessi regla um 70 árin var sett inn var sú að það var kominn þrýstingur frá leigubílstjórum sjálfum um að þarna yrðu settar ákveðnar reglur vegna þess að í einstökum tilvikum héldu menn áfram akstri leigubíla þó svo að þeir væru orðnir, hvað á ég að segja, þreyttir til akstursins, hefðu kannski ekki sama þrek og áður og menn töldu nauðsynlegt að grípa þar inn í en bílstjórafélögin sjálf töldu sig ekki hafa heimild til þess.