Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:53:14 (6244)


[15:53]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi ef frv. þeirra hv. þm. Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar yrði að veruleika þá sæi hann ekki hvers vegna ráðherra ætti yfirleitt að vera að skipta sér af nefndaskipaninni. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Hvers vegna ætti að hafa það þannig? Ég tel það rökrétta og eðlilega niðurstöðu sem ráðherrann benti á að auðvitað er alveg hægt að hafa þetta heima í héraði og því ekki að hafa það þannig? Ég tel það alveg koma til greina og ég held að nefndin hljóti að vilja skoða það.
    Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra beinir því nánast til nefndarinnar að reyna að ná víðtæku samkomulagi um þær breytingar sem þarna er verið að tala um. Ég vonast til að það takist en tíminn til þess er naumur og því miður er frv. svo seint á ferðinni að það er erfitt að sjá að það gangi að klára þetta mál fyrir vorið.
    Ég vil bara segja það að lokum um aldurinn á bifreiðastjórum að ég held að það þurfi að taka það til alveg sérstakrar skoðunar og þá þýðir ekkert að tala bara um leigubílstjóra í því sambandi. Það verður að tala um atvinnuréttindi manna sem stjórna atvinnutækjum, vinnuvélum, bílum og öðrum sambærilegum tækjum því að það verður að vera eitthvert samræmi í því sem verið er að setja í reglur í landinu. Ef það á að fara að setja eitthvert aldurstakmark, burt séð frá ástandi manna andlega eða líkamlega, bara á einhverja eina eða tvær stéttir þá erum við á villigötum. Við verðum að hafa eitthvert samræmi í hlutunum.