Mál á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 16:08:06 (6252)


[16:08]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á þessum tveimur síðustu ræðum sem hér hafa verið fluttar. Það er engu líkara en það sé algert sambandsleysi innan þingflokks Alþb. Það var haldinn fundur þingflokksformanna kl. 3 þar sem þetta varð niðurstaðan. Það vill þannig til að úr þingflokki Alþb. er einn maður á mælendaskrá í þessu máli. Það er sá sem gegnir formennsku í þingflokknum um þessar mundir og stóð að þessu samkomulagi. Hann er þá sá sem þetta ætti upp á að klaga ef eitthvað væri upp á þetta að klaga.
    Það vita allir hvernig fór með það dagskrármál sem ætlunin var að tala um í dag og kvöld. Það er út af fyrir sig ekkert um það að segja meira, en það eru þrír menn á mælendaskrá í frv. um Lyfjaverslun ríkisins. Tveir af þessum þremur eru starfandi þingflokksformenn og eru aðilar að þessu samkomulagi. Þessir menn allir saman gerðu ráð fyrir því að þetta frv. yrði til umræðu sl. föstudag. Síðan var því frestað fram yfir helgi og var, eins og fram kom, ætlunin að taka það á morgun en ekkert kom fram á fundi þingflokksformanna í dag sem mælti gegn því að það yrði tekið nú kl. 18 og um það varð samkomulag.