Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:34:04 (6272)


[18:34]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst upp í ræðustól til að þakka hv. 1. flm. fyrir hans seiglu í þessu máli. Hann hefur barist fyrir því núna tvö þing og reyndar var það svo að málið var afgreitt út úr þingnefnd á síðasta þingi en náðist ekki að greiða um það atkvæði vegna þess með hvaða hætti þingi lauk sl. vor. En það er mikill meiri hluti fyrir þessu máli í hv. allshn., það eru sex nefndarmenn af níu sem styðja málið og það er ekki hægt að segja annað en að málið hafi fengið mjög góða vinnslu í hv. allshn., bæði á síðasta þingi og svo aftur á þessu þingi þannig að málið er fullunnið og niðurstaða fengin í nefndinni sem er sú að mikill meiri hluti styður þetta mál.

    Ég þarf ekki að segja mikið um málið, bæði er búið að mæla fyrir nál. meiri hlutans á mjög skýran hátt og eins flutti 1. flm. mjög skýrt mál líka. En ég verð að segja það eftir að hafa hlustað á ræðu hv. 15. þm. Reykv. að þeir sem eru þeirrar skoðunar að aldrað fólk eða fólk yfir höfuð skuli hafa lögheimili á þeim stað þar sem það hefur fasta búsetu hljóta að stíga skrefið til fulls og flytja brtt. sem afnemur allar undantekningar. Það er auðvitað ekki hægt að mismuna þegnunum með þessum hætti. Þeir sem hafa þessa skoðun hljóta því að vera sjálfum sér samkvæmir og leggja þetta til. Það liggur hins vegar alveg fyrir að kerfið ræður við undantekningar og við verðum að líta á þessa tillögu hér sem undantekningarhóp, þ.e. aldraða og sjúka. Kerfið ræður við það. Það eru nokkrir hópar innan þjóðfélagsins sem falla þar undir, m.a. við sem erum þingmenn, og sú undantekning er ekkert í einn eða tvo mánuði. Það má yfirleitt reikna með því að þingmaður sitji a.m.k. fjögur ár og vel flestir sitja lengur en það. Þá er spurningin: Hver skyldi vera meðaldvalartími á dvalarheimilum aldraðra? Ætli kerfið ráði ekki alveg jafnt við þann tíma og þann tíma sem ætlaður er þingmönnum?
    Ég tel því alveg ljóst að það er enginn skaði skeður fyrir kerfið sem slíkt þó þessum hópi verði bætt við þennan undantekningarhóp.
    Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að kerfið og tölvurnar eru fyrir fólkið, fólkið er ekki fyrir tölvurnar. Þetta urðum við svolítið varir við í vinnslu nefndarinnar. Menn höfðu meiri áhyggjur af þessum þætti heldur en hinum mannlega. Það er slæmt vegna þess að þetta mál er fyrst og fremst mannúðarmál, þetta er tilfinningamál gamla fólksins. Við getum bara ímyndað okkur það að hjón sem hafa búið saman allan sinn aldur á sama stað, annað þarf að fara á dvalarheimili aldraðra, það dvalarheimili er hugsanlega ekki til . . .   ( KHG: Þá verða þau að skilja.) Þá verða þau faktíst að skilja, segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Þau eru í raun og veru aðskilin, það er rétt. --- Ef dvalarheimili er ekki til í sveitarfélaginu þá fer annað hjóna út úr sveitarfélaginu og þau búa á sínum staðnum hvort með sitthvort lögheimilið og það sem fer á dvalarheimilið fær ekki að nota sinn kosningarrétt í sínu upprunalegu sveitarfélagi þar sem allar tilfinningar og allar rætur liggja. Ég lít því ekki síst á þetta út frá mannúðarsjónarmiði og þeim tilfinningalega þætti sem þarna er til staðar.
    Það hefur líka verið nefnt að það væru erfiðleikar varðandi póstþjónustu. Það er bara rangt. Það er rangt vegna þess að pósturinn býður upp á þá þjónustu að það er hægt að leggja inn breytt heimilisfang, t.d. á dvalarheimili. Þó pósturinn sé enn þá merktur á lögheimili þá er það inni í kerfi póstsins að sá póstur færi á dvalarheimilið. Það er því engin fyrirstaða þar heldur.
    Hæstv. forseti. Þetta vildi ég aðeins segja en ég kom upp fyrst og fremst til þess að þakka hv. 1. flm. fyrir elju hans í þessu máli og ég vona svo sannarlega að þingheimur taki undir með honum og þeim sem málið styðja.