Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:22:39 (6286)


[21:22]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er flutt til að breyta þeirri skipan að Hollustuvernd ríkisins heyri undir tvö ráðuneyti þar sem það er mat þeirra sem þar vinna að það sé óæskilegt og því sé rétt að breyta þarna til. Nú skal ég ekki dæma um hvort það eigi að vera útilokað að stofnun heyri undir tvö ráðuneyti en augljóslega hefur það ýmsa annmarka í för með sér. Þá mætti segja að það væri lausn að skipta slíkri stofnun. En það mun óhjákvæmilega hafa ýmsan kostnað í för með sér og við verðum að sjálfsögðu að gæta þess að ganga þar hóflega um. Að mínu mati þá mun sá þáttur Hollustuverndar sem lýtur að eftirliti með matvælum fara vaxandi á næstu árum. Sá þáttur þurfi að fara vaxandi og hljóti að gera það. Því gerði ég þann fyrirvara við stuðning minn við þetta frv. að ég vildi leggja áherslu á að þessi breyting yrði ekki til þess að slík þróun yrði þar sem það er sífellt að koma betur í ljós hversu brýnt er að fylgjast með matvælum, sérstaklega þeim sem til landsins eru flutt vegna mengunar í umhverfi þar sem þau eru framleidd.
    Meiri hluti allshn. flytur þá brtt. sem ég styð að landlæknir verði áfram ráðgjafi ráðherra og ríkisstjórnar um allt er að hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti lýtur og leggur þar með áherslu á þetta sjónarmið. Miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. umhvrh. hefur gefið þá vil ég trúa að þarna muni verða rétt á málum haldið. En í svari við fsp. sem ég bar fram fyrr á þessu þingi til hæstv. heilbrrh. þá kom fram að stofnunina þarf að búa betur að tækjum og mannskap til þess að geta sinnt nægilega vel þessu veigamikla hlutverki.
    Reynslan mun að sjálfsögðu skera úr um hver þróunin verður. Þá verður hægt að gera nauðsynlegar breytingar ef menn meta það svo að þess þurfi en ég vil vona að til þess komi ekki heldur verði þessi stofnun fær um og muni leggja sig fram um að sinna þessu mikilvæga hlutverki engu að síður þó hún lúti einum ráðherra.