Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:47:35 (6288)


[21:47]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir valdi þessu frv. hræðileg orð. Arfavitlaust frv. kallaði hún það. Í hinu orðinu segir hún jafnframt að það þurfi, virðulegur forseti, að styrkja umhvrn. og bætti því við einhvers staðar í máli sínu: ,,Ef það má aldrei breyta neinu þá komumst við ekki neitt.`` En því miður þá speglaði allt hennar mál að það má aldrei breyta neinu. Það var ekki annað hægt að lesa út úr máli hv. þm. Hv. þm. gat þess réttilega að það þyrfti að tengja betur saman matvælaeftirlit í landinu og benti á að það væri núna í rauninni fallið undir þrjú ráðuneyti. En af því hv. þm. var með í höndunum frv. til laga um ný matvælalög þá vil ég benda henni á, ég held að það sé í 8. gr. þess frv. og raunar í athugasemdum við frv., þar sem er talað um að setja upp samstarfsráð Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralæknis. Það er einmitt verið að gera í frv. sem liggur fyrir þinginu. Það er verið að tengja þetta betur saman.
    Ég hef aðra skoðun á því en hv. þm. hvað það er sem fellur undir umhverfismál. Og ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst skilningur hv. þm. nokkuð þröngur á því. En það er auðvitað hennar réttur að vera annarrar skoðunar og hafa sína skoðun á því hvernig þessi mál eiga að vera. Um það getum við deilt. Hún flutti hér sína skýringu á því hvers vegna þetta frv. ætti ekki fram að ganga. Gott og vel. En það sem mig langar sérstaklega til að inna hana eftir eru þau ummæli að þetta væri beinlínis slæmt fyrir umhvrn. Og ég beið eftir því lengi ræðu hennar að finna rök fyrir þessari fullyrðingu. Þau rök komu ekki. Mér þætti fróðlegt og ég held að það væri gagnlegt til að skilja betur þessa umræðu að hv. þm. gerði svolitla grein fyrir þeirri skoðun sinni hvers vegna það sé slæmt fyrir umhvrn. að Hollustuvernd ríkisins færist undir það.