Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:52:20 (6290)


[21:52]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég virði það alveg að hv. þm. er annarrar skoðunar en ég um það hvað ætti að falla með réttu undir umhvrn. Það er ekkert skrýtið þó að menn hafi mismunandi skoðanir á því hvað telst umhverfismál eða ekki. En hv. þm. sem er líka formaður umhvn. Alþingis túlkar þessa tillögu sem hér liggur fyrir þannig að hún beinlínis skaði umhvrn. Það er auðvitað merkilegt og nokkuð alvarlegt þegar formaður umhvn. kemur fram með slíka ásökun því það er ekki hægt að kalla það annað. Það er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að í því felist ásökun um að umhvrh. taki þátt í gjörningi sem laski hans eigið ráðuneyti. Þess vegna finnst mér virðulegur forseti, að það sé ekkert skrýtið þó að ég fari með allri vinsemd og í mikilli kurteisi fram á að nákvæmlega þessi fullyrðing verði rökstudd. En hún var ekki rökstudd hér áðan.