Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:55:48 (6292)


[21:55]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Kvennalistans, Kristínar Einarsdóttur, hér áðan um nefndarálit frá meiri hluta allshn. vil ég taka skýrt fram að það er ekki verið að gera lítið úr starfsemi þessarar stofnunar undir því ráðuneyti sem hún heyrir til núna, síður en svo, þannig að ég held að það sé misskilningur. En þau orð sem vitnað var til þau komu fram m.a. á sameiginlegum fundi hv. umhvrn. og heilbr.- og trn. Ég sótti þann fund sem fulltrúi heilbr.- og trn. og man ekki betur en að fulltrúar einmitt stofnunarinnar sjálfrar, m.a. framkvæmdastjórinn, hafi viðhaft þau orð sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir var að vitna í. Ég vil enn fremur vitna til álits meiri hluta þessara þingnefnda sem birtast sem fylgiskjöl með þessu nál. Í áliti meiri hluta heilbr.- og trn. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar gerir að lokinni umfjöllun um málið ekki athugasemdir við meginefni frumvarpsins, þ.e. að starfsemi Hollustuverndar ríkisins verði að öllu leyti flutt frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Fyrir liggur að hluti starfsemi Hollustuverndar ríkisins heyrir þegar undir umhverfisráðuneyti og fram kom í máli þeirra sem sóttu fyrrgreindan fund þingnefndanna að fagleg tengsl við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti væru ekki mikil. Á hinn bóginn kom fram að nauðsynlegt væri að tryggja vægi heilbrigðissjónarmiða í umfjöllun um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.``
    Og í áliti frá meiri hluta umhvn. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar styður meginefni frumvarpsins og telur að flutningur á allri starfsemi Hollustuverndar ríkisins til umhverfisráðuneytis muni efla ráðuneytið. Fyrir liggur að hluti starfsemi stofnunarinnar heyrir nú þegar undir umhverfisráðuneyti og meiri hlutinn telur æskilegt að Hollustuvernd ríkisins heyri með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir undir einn ráðherra. Þá bendir meiri hlutinn á að enginn þeirra sem sóttu fyrrgreindan fund þingnefndanna virtist efast um að stofnunin fengi nauðsynlegan stuðning, bæði stjórnsýslulegan og faglegan, í umhverfisráðuneytinu.``
    Meiri hluti allshn. tekur undir þessi sjónarmið, hún gerir það í sínu nál.