Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:51:31 (6298)


[22:51]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ansi djúpt á rökunum hjá hæstv. umhvrh. í málinu. Hann vinnur sér til hægari verka að vitna til álitsgerðar frá stjórn Hollustuverndar ríkisins sem hann greinilega gerir að sinni sem einfaldlega leggur það til að stofnunin í heild sinni verði flutt. Eru það nú vinnubrögð. Eru það nú vinnubrögð að koma hér upp og vitna til þessa eins en flytja ekki nein fagleg rök fyrir því sem hér er verið að gera. Hæstv. ráðherra bætti ekki nokkrum sköpuðum hlut við það sem áður hefur fram komið í þessu máli. Svaraði engu þeirri efnislegu gagnrýni og ábendingum sem fyrir liggja í málinu. Því miður.
    Stjórn Hollustuverndar ríkisins kann að hafa verið að gefast upp fyrir þeim aðstæðum sem hún hefur búið við. Það getur hafa verið full þörf á því einmitt að fara yfir lögin um Hollustuvernd, skipan Hollustuverndar sem stofnunar og fyrirkomulag. Það áttu ráðuneytin að gera og alveg sérstaklega heilbrrn., að láta slíka athugun fara fram áður en slík tillaga væri fram borin án nokkurs rökstuðnings eins og fram kemur í þessu frv. eða réttara sagt rökstuðnings sem ekki kemur fram í þessu frv. og hefur ekki komið fram í þessu máli. Það er bara af því bara.