Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:57:10 (6301)



[22:57]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir alla þá hv. þm. sem styðja þetta mál. En það mætti kannski spyrja fleiri um álit. Hvað með t.d. formann Alþb., hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem á sæti í umhvn. en skrifar þó ekki undir þetta minnihlutaálit frá nefndinni? Ég vil mótmæla því að það hafi verið um að ræða flaustursleg vinnubrögð varðandi meðferð málsins í allshn. þar sem málið var sent til faglegrar umfjöllunar hjá tveimur þingnefndum sem óskuðu eftir að fá málið. Það er frekar óvanalegt um stjfrv.
    Ég vil hins vegar segja að það er að sjálfsögðu von okkar í meiri hluta allshn. að vel takist til og auðvitað þarf að gæta vel að markmiðum starfsemi Hollustuverndar. Ég tek undir mikilvægi þess. Varðandi ráðuneytin þá er það líka rétt að það er stundum umhugsunarefni hvaða málaflokkar eiga helst að heyra undir hvert ráðuneyti en breytingar hafa orðið og breytingar eru gerðar. Ég nefni sem nýlegt dæmi flutning barnaverndarmála, sem er stór málaflokkur, frá menntmrn. til félmrn.