Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 23:00:18 (6303)


[23:00]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Í gegnum árin þegar ég hef fylgst með störfum Alþingis og málflutningi einstakra þingmanna hefur mér virst af orðfæri nokkurra þeirra að þeir hafi sérstakan áhuga á vexti og viðgangi umhvrn. sem er þó ekki orðið gamalt að árum. Meðal þeirra þingmanna sem þannig hafa talað eru þeir hv. þm. sem hér hafa farið talsvert mikinn í umræðunni, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson annars vegar og hv. þm. Kristín Einarsdóttir hins vegar. Í einfeldni minni hugði ég að þessir hv. þm. sem ég nefndi til sögu yrðu vafalaust eitilharðir og einlægir stuðningsmenn eflingar umhvrn. á borð við þá sem hér er verið að leggja til og væntanlega verður lögfest. En öðruvísi mér áður brá. Og stundum er það nú þannig, virðulegur forseti, í stjórnmálum og kannski allt of oft að menn tala á einn veg þegar ákvarðanir eða afstaða er langt undan og menn geta rætt vítt og breitt um málin eins og það heitir, velt upp ýmsum kostum, lýst ýmsum lausum viðhorfum, en hrökkva síðan undan þegar til kastanna kemur.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rifjaði það upp í alllöngu máli þegar fyrirrennari minn í heilbr.- og trmrn., ég hygg að hann hafi tilgreint árið 1982, þegar hv. núv. þm. Svavar Gestsson setti einar tvær

nefndir í að skoða þætti því tengda sem hér er um að ræða. Það mál komst ekki áfram, orðaði hv. þm. það efnislega. Það komst hins vegar áfram árið 1989 og er hér í kvöld og væntanlega kemst þetta sama mál, sem komst ekki áfram 1982 í tíð þáv. heilbr.- og trmrh., á næstu dögum markverð skref áfram. Með öðrum orðum er hér verið að efla þetta umhvrn. sem svo margir hafa í orði kveðnu talið nauðsynlegt að fái eðlilegan vöxt og viðgang, fái aukin verkefni og vægi í heimi þar sem menn hafa sannarlega í auknum mæli ástæðu til þess að skoða þá málaflokka sem nærri því ráðuneyti liggja.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, rifjaði það líka upp áðan og gaf einstökum stjórnmálaflokkum einkunn í því sambandi. Flestir fengu nú heldur bága einkunn ef ég hef skilið hann rétt þegar kom að áhuga stjórnmálaflokka á umhverfismálum og sögu þeirra hvað varðar stofnun og síðan væntanlega vöxt og viðgang sérstaks umhverfisráðuneytis. Þá aftur hlýt ég að undrast það mjög, virðulegur forseti, hvernig á því geti staðið að þessi sami þingmaður og kollegi hans, virðulegur þingmaður Kristín Einarsdóttir, séu þeir tveir þingmenn sem standi hér upp og geri flest sem í þeirra valdi stendur til að tefja fyrir og bregða fæti fyrir að verkefni verði í raun og sanni flutt til þessa sama umhvrn. Það er auðvitað eftirtektarvert og menn munu rifja það upp síðar meir. Ekki meira um það, virðulegur forseti.
    Hitt vil ég segja að seint komast menn að einhverjum stórum sannleik um það hvernig stjórnsýslu hér á landi verði best háttað, þ.e. hvernig einstökum verkefnum sem undir ríkisvaldið heyra verði best fyrir komið og skipt á einstök ráðuneyti. Ég hygg að menn hafi tekist á um þau mál svo lengi sem ríkisvald í einni eða annarri mynd hefur til verið. Auðvitað er það hárrétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að uppi eru ýmis álitamál nú og verða væntanlega síðar eftir því sem tíminn líður og mál þróast til eða frá.
    Virðulegur þingmaður nefndi það að undarlegt væri að heilbr.- og trmrn., það ráðuneyti sem sannarlega ber hina stærstu ábyrgð á heilbrigði mannsins, léti það yfir sig ganga og ýtti raunar undir það að mikilvægt verkefni eins og það að hafa eftirlit með gæðum matvæla, bera á því ábyrgð að sú matvara sem manninum býðst sé honum bjóðandi, væri frá því tekið. En auðvitað er það þannig ef eftir þessu yrði gengið til hins ýtrasta og að virðulegt ráðuneyti heilbrigðismála ætti að ala önn fyrir öllu því sem manninum kæmi best þá yrði seint stöðvað. Þá sýnist mér ýmis verkefni liggja í öðrum ráðuneytum sem er ekki seinna vænna en nú að bregða undir regnhlíf heilbrrn. Þau eru nú ekki fá verkefnin sem þá þyrftu að koma undir það ráðuneyti. Ég nefni íþróttamál, menningarmál, félagslega þjónustu af ýmsum toga, ég nefni meira að segja kirkjumál. Ég get nefnt til sögunnar mörg atriði önnur sem eru í umhverfi okkar og varða heilbrigði mannsins í sinni víðustu mynd sem samkvæmt þessari skilgreiningu hv. þm. ættu þar með að heyra undir heilbrrn. Ég nefni þannig á sama hátt mengunarmál og umhverfisvernd. Það er kannski tillaga hv. þm., sem mér hefur orðið tíðrætt um, að flytja þá málaflokka úr ráðuneyti umhverfismála . . .   ( KE: Þetta er ómerkilegt.) og undir ráðuneyti heilbrigðismála sem á að ala önn fyrir öllu því sem að manninum lýtur.
    En auðvitað er veruleikinn ekkert líkur þessu. Stjórnsýslan er allt öðruvísi en þannig að svona geti menn nálgast þessi viðfangsefni.
    Ég vil hins vegar árétta það, virðulegur forseti, að ég held að hvorki hér og nú á hv. Alþingi né eftir svo og svo mörg ár verði einhver stóri sannleikur sem hv. þingheimur getur sameinast um hvernig málum verður best fyrir komið.
    Það hefur komið fram í umræðunni og raunar verið áréttað aftur og aftur að nokkur höfuðatriði hafa mælt með þessum verkefnatilflutningi. Í fyrsta lagi, eins og ég hef nefnt undir öðrum formerkjum, að efla umhvrn., færa ný verkefni til þessa nýja ráðuneytis og festa þar í sessi svo um munar. Í öðru lagi hefur það líka verið nefnt og er rétt að árétta að með þessum hætti er verið að samhæfa starfsemi stofnunarinnar þannig að hún lúti einu ráðuneyti. Það þarf auðvitað ekkert að fara mörgum orðum um þetta. Stjórn stofnunarinnar hefur margoft áréttað nauðsyn þessa og flestir þeir sem nærri þeirri stofnun hafa komið eða til hennar þurfa að sækja telja að það sé óheppilegt að tvö ráðuneyti fari með málefni einnar stofnunar. Þannig er það alls staðar í okkar stjórnkerfi og keppikefli hygg ég yfirleitt að reyna að skýra línur eins og nokkur kostur er hverju sinni.
    Í þriðja lagi vil ég nefna, og það hefur kannski ekki verið nægilegur þungi í þeirri umræðu, viðhorf ekki eingöngu starfsmanna þessarar stofnunar, u.þ.b. 30 talsins, sem telja þegar kemur að samhæfingu starfa þeirra og þeirra verkefna sem þeir hafa með höndum heldur ekki síður starfsmanna sveitarfélaganna, heilbrigðisfulltrúanna sem bera í raun hita og þunga dagsins úti í héruðunum. Þeir munu vera í kringum 30--40 talsins og eru bæjarstarfsmenn eða starfsmenn sveitarstjórna en heyra fram undir þetta undir tvö ráðuneyti eftir því hvernig verkin falla til frá einum tíma til annars í erli dagsins. Þeirra viðhorf hafa verið þau eins og kemur fram í álitsgerð að heppilegt sé í fyrsta lagi að þetta falli undir eitt ráðuneyti, sem ég held að flestir séu sammála um, og í öðru lagi að það fari vel á því að þetta sé undir ráðuneyti umhverfismála. (Gripið fram í.)
    Í fjórða lagi hefur það komið fram hér ítrekað í máli hv. formanns allshn. að fjölmargir umsagnaraðilar sem hafa verið nefndir til sögunnar hafi almennt lýst yfir stuðningi við þennan tilflutning.
    Ég gríp hér eina umsögn af handahófi af því að ég veit að þeir hv. þm. sem mál mitt heyra eru sérstakir áhugamenn um þá stofnun og það er Náttúruverndarráð. Með leyfi forseta, segir í þeirri umsögn:
    ,,Náttúruverndarráð fagnar því að yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits verði að öllu leyti á ábyrgð umhvrn.``

    Þetta er mjög eftirtektarvert. Og kannski sérstaklega eins og ég sagði áðan fyrir þá hv. þm. sem á mál mitt hlýða og hafa löngum verið taldir sérstakir áhugamenn um vöxt og viðgang þessa ráðs og viljað á það hlusta og hlýða og taka á því mark.
    Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að seint kæmumst við að einum stórum sannleik um það hvernig stjórnskipan okkar yrði best háttað. Ég nefni sem dæmi um þessa snertifleti heilbrrn. í viðleitni þess til að gera hinum íslenska manni sem bærilegast lífið og reyna að treysta velferð hans á alla þá lund sem opinberum aðilum er gerlegt. Nú um nokkurra mánaða skeið hefur verið unnið að undirbúningi átaks á sviði heilsueflingar þar sem forvarna- og fræðslustarfsemi er mjög veigaþung. Það liggur í hlutarins eðli og er snar þáttur í þeirri undirbúningsvinnu sem nú er á lokastigi þannig að átak þetta geti hafist að fleiri ráðuneyti komi að þessu máli, menntmrn. og íþróttamálin og raunar fleiri málaflokkar þar, félmrn., svo ég nefni aðeins tvö til sögunnar.
    Þannig er það um fjölmarga málaflokka sem hv. Alþingi er að sýsla með, sem stjórnsýslan almennt er að sýsla með, að þeir hljóta eðli máls samkvæmt frá einum tíma til annars að skarast að einhverju leyti. En við eigum að freista þess frá einum tíma til annars að sú skörun verði sem minnst og við getum haft sem skýrastar línur a.m.k. gagnvart undirstofnunum einstakra ráðuneyta eins og Hollustuvernd og slíkar stofnanir þurfi ekki að þjóna tveimur eða fleiri herrum á sama augnablikinu.
    Virðulegur forseti. Ég gæti út af fyrir sig haft lengra mál um þetta. Mér finnst hins vegar hinar einföldu staðreyndir tala sínu máli í þessu sambandi. Þær eru að við viljum öll í orði kveðnu og í verki styðja og styrkja umhvrn. Í annan stað falla þau verkefni sem hér um ræðir vel að þeirri starfsemi sem fyrir er í umhvrn. og almennt að þeim verkefnum sem því eru falin. Í þriðja lagi er almennur stuðningur við þennan tilflutning. Ekki síst í fjórða lagi hefur það verið nefnt og meira að segja í áliti minni hluta umhvn., og ég satt að segja átti dálítið erfitt með að fóta mig á þeim málflutningi, en þar er lýst áhyggjum um að í kjölfar breytinganna, þ.e. tilflutningsins, muni áhersla fremur verða á mengunarsviði en síður á heilbrigðiseftirliti. ( KE: Áhyggjur?) Ég, virðulegur forseti, les beint úr nál. minni hlutans. Orðrétt hljóðar þessi tilgreinda málsgrein þannig, með leyfi forseta:
    ,,Áhyggjur komu fram um að í kjölfar breytingar samkvæmt frv. mundi áhersla fremur verða á mengunarsviði en síður á heilbrigðiseftirliti. Aðspurður taldi ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis vaxtarþörf einkum vera á mengunarvarna- og eiturefnasviði og er því ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af því að mengunarvarnasviðinu verði gert lægra undir höfði en nú.``
    Ég taldi það gefa auga leið að með þessum tilflutningi mundu menn ætla, þar sem mengunarvarnirnar hafa verið á sérsviði umhvrn. fram að þessu, að þar væri hlutunum ekki síður fyrir komið og áherslan yrði ekki síður á mengunarvarnasviði en ég gat ekki skilið orð hv. þm. Kristínar Einarsdóttur öðruvísi en þannig að hún hefði áhyggjur með öfugum formerkjum að úr þessu drægi og það kemur mjög á óvart. En hún skýrir það þá miklu betur hér á eftir því að mér tókst ekki að fá nokkurn botn í það og þar af leiðandi ekki í þetta nál. minni hlutans hvað að þessu lýtur.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegur forseti. Ég held að einmitt fyrir þær sakir að þetta frv. er einfalt og skýrt og markmið þess ljós og klár liggi styrkur þess ekki síst. Þess vegna læt ég máli mínu lokið.