Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 23:33:41 (6305)


[23:33]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að bæta svolitlu við í þessa umræðu eftir að hæstv. umhvrh. hefur talað og reynt væntanlega af sinni hálfu að skýra ástæður fyrir því að hann hefur gert þetta að tillögu sinni og er hugsanlega frumkvæðisaðili að því, trúlega frumkvæðisaðili að því að þessi breyting verður án þess að ég vilji leggja mat á það. Þá á ég nú við milli ráðherranna gagnvart ríkisstjórninni.
    Mér finnst að rökin sem hér voru færð fram af hálfu hæstv. ráðherra séu ófullnægjandi og hafi í rauninni bætt allt of lítið úr því sem eftir var kallað, þ.e. að fá fram fagleg rök fyrir þeirri breytingu sem hér er verið að gera. Svo ég leyfi mér, virðulegur forseti, að fara yfir þessi höfuðatriði en ráðherrann, þegar hann kom að rökstuðningnum sem hann taldi sig vera að flytja, nefndi nokkur höfuðatriði og þá var það fyrsta að efla umhvrn. Það var fyrsta atriðið sem hér var nefnt sem höfuðatriði. Í öðru lagi að samhæfa starfsemi Hollustuverndar með því að færa hana undir eitt ráðuneyti. Það var það næsta. Það væri óheppilegt að tvö ráðuneyti færu með stjórn heillar stofnunar. Hið þriðja var það sem sneri að heilbrigðisfulltrúum á vegum sveitarstjórna, það væri þeim til hagsbóta að falla undir eitt ráðuneyti. Það var þriðja atriðið. Síðan nefndi hæstv. heilbrrh. fjórða atriðið að það hefði komið fram stuðningur við þetta frá mörgum umsagnaraðilum. Það er nú svona meiri ályktun eða tilvísun í umsagnir frekar en rökstuðningur af hálfu ráðherra og í því sambandi vék hann sérstaklega að Náttúruverndarráði í sambandi við umsagnaraðilana.
    Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með það að þessi ákvörðun skuli tekin á svona veikum grunni eins og hér kemur fram. Það er alveg ljóst, mér finnst það hafa skýrst í þessari umræðu, að því leyti er hún gagnleg, að þessir tveir nýlega skipuðu ráðherrar Alþfl., þeir komu til starfa á miðju síðasta sumri ef ég man rétt, þeir hafa brugðið á þetta ráð svona á grundvelli einhverra bréfa sem lágu fyrir frá stjórn Hollustuverndar ríkisins, sem hefur verið að ýta þessu að þeim í einhverju baksi sem hún var með, sem ég hef út af fyrir sig ekki sett mig inn í í einstökum atriðum og án frekari athugunar málsins, þá á ég við frekari efnislegrar athugunar málsins. Þá einfaldlega koma þeir saman um það. Ætli formaður þeirra hafi ekki sagt svona yfir kaffibolla eins og hann hefur stundum nefnt þegar hann hefur verið að taka allstórar ákvarðanir að þeir svona yfir kaffibolla hafi komið sér saman um það: Ætli það sé ekki best að umhvrh. fái þetta, umhvrn. fái þetta bara. Við komum okkur bara saman um það. En það er svona sem mér finnst að menn megi ekki vinna í sambandi við að reyna að koma á skynsamlegri skipan mála. Ég vil ekki draga það í efa að þessir hæstv. ráðherrar hafi talið sig vera að starfa og gera tillögur í góðri trú um að þeir væru að ráða rétt. En þeir höfðu ekki fyrir því, mér finnst það koma fram hér í umræðunni að þeir hafi ekki haft fyrir því að fara efnislega yfir málið og finna nauðsynlegan rökstuðning fyrir þessari breytingu.
    Þá kem ég að því sem kom líka fram í svarræðu hv. 15. þm. Reykv. að áhugi á stjórnsýslunni og skipan mála innan Stjórnarráðsins er ekki bara einhver trú á að það þurfi að stækka eitthvert ráðuneyti, auka við málaflokkum undir viðkomandi ráðuneyti svona af því bara, sjá til þess að það fái sem flesta starfsmenn og bólgni út. Þannig skapast ekki viðhorf manna. Þannig er ekki mitt viðhorf til umhvrn. né nokkurs annars ráðuneytis. Heldur hitt að reyna, eins og hæstv. umhvrh. kom að í lok máls síns, að koma á verkaskiptingu þannig að skörun í málum sem falli eðlilega saman í stjórnsýslunni verði sem minnst. Það er ekki gert með þessum hætti. Þá kemur að þessu sem virðist hafa verið fótakeflið sem þeir ultu um þegar þeir tóku þessa ákvörðun yfir kaffibolla þessir hæstv. tveir ráðherrar og það er þetta, það er hnúturinn sem þeir töldu sig vera að leysa, það eru vandræðin í þessari stofnun Hollustuvernd ríkisins með einni stjórn yfir sér undir tveimur ráðuneytum, verksviði undir tveimur ráðuneytum. Þeir töldu sig vera að leysa þennan hnút með því að kippa bara Hollustuverndinni yfir með þessum hætti, yfir í umhvrn. Þetta eru auðvitað fljótfærnisleg vinnubrögð og styður það sem hefur verið sagt í þessari umræðu að það átti að ganga þannig til verka að fara yfir lögin og verksvið Hollustuverndar og athuga það m.a. hvort ekki væri hægt að koma á betri skipan og leysa úr þeim vandræðum sem stjórnin vafalaust hefur verið að velta fyrir sér með því að endurskipuleggja þessa stofnun. Leysa hana upp og endurskapa úr hennar verkefnum. T.d. að líta á þau efni sem vikið er að í áliti minni hluta umhvn., þ.e. að færa saman ýmis verkefni sem nú eru dreifð á sviði matvælaeftirlits og fyrir utan matvælaeftirlit Hollustuverndar ríkisins falla undir Fiskistofu og yfirdýralækni slíka aðila sem væri mjög athugandi að reyndu að tengjast traustari böndum en nú er og bæta kannski við mengunarvarnasvið umhvrn. t.d. með því að Geislavarnir ríkisins bættust við mengunarþáttinn hjá umhvrn. og það sem verið hefur á sviði Siglingamálastofnunar kæmi þar einnig til. Það á auðvitað miklu betur saman en það sem verið er að hræra saman í þessum potti.
    Ég vil þá aðeins nefna það, virðulegur forseti, að hér á árum áður þegar menn voru að ræða um stofnun umhvrn. eða að samræma þau mál með öðrum og skilmerkilegri hætti og margir voru tregir til, þar á meðal var sá stóri flokkur Sjálfstfl. mjög tregur í taumi að fara að stofna sérstakt ráðuneyti, svona tók undir samræmingu á yfirstjórn þessara mála, jafnvel að búa til einhverja deild undir öðru ráðuneyti. Þá voru þeir til, hæstv. heilbrrh., sem orðuðu það að tengja svona umhverfismálaþættina sem voru þá undir menntmrn., jafnvel undir félmrn., að tengja þá við heilbrrn. Það var inni í þessari umræðu hér fyrr á árum og þótti sumum vel til fallið. Ég studdi það nú ekki af því að ég taldi mjög þýðingarmikið að hér yrði um að ræða frá byrjun sjálfstætt ráðuneyti umhverfismála til þess að það yrði burðugt og fengi þá vikt sem það þyrfti. Það eru sem sagt fagleg sjónarmið og mat á því hvað best falli saman innan stjórnsýslunnar sem valda minni afstöðu í þessu. Ég tek ekki hverju sem er og segi þetta er ágætt að setja í umhvrn. svona til að það fái fleiri verkefni. Ég tel að þörfin á því að efla þetta ráðuneyti, alveg sérstaklega á þeim sviðum sem það þegar hefur, hún sé mjög brýn sem og að leitast við að vinna því skilning að færa fleiri þætti, sem að mínu mati eiga eðlilega heima undir umhvrn., að koma þeim þar inn fyrir. Það sem veldur áhyggjum er að þetta hefur ekki orðið ofan á heldur sú flausturslega tilfærsla sem hér er lögð til með þessu frv. og mér sýnist að hafi skýrst með þessari umræðu, skýrst nokkuð vel og það er fengur að því að hæstv. heilbrrh. hefur tekið þátt í umræðunni og fært fram sín rök. Það sýnir einfaldlega að þetta hefur verið fljótræðislega unnið. Það hefur ekki verið leitað víða ráða, það hefur ekki verið vandleg skoðun mála og menn hafa fyrst og fremst talið að þeir væru að leysa einhver vandræði sem stjórn Hollustuverndar ríkisins, þessi sjö manna stjórn sem skipuð er samkvæmt lögunum, úr sinni áttinni hver, var að færa fram, taldi sig ráða illa við og ráðherrarnir töldu sig vera að leysa þann vanda með þessari snöggsoðnu tillögu sinni.