Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:03:21 (6312)


[11:03]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar það að hér sé verið að flytja sífellt sömu ræðuna þá er það auðvitað þannig að við stjórnarandstöðuþingmenn erum að reyna að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og reyna að hafa áhrif til góðs á hæstv. ríkisstjórn þar sem þetta frv. snertir hagsmuni mjög margra eins og ég nefndi áðan, bæði borgaranna og ríkissjóðs í heild. Hér er mjög stórt mál um að ræða. Hvað það varðar að hægt sé að halda áfram með mál þó það snerti dómsmál þá mundi ég varpa þeirri spurningu fram til hæstv. ráðherra hvort við í hv. fjárln. getum þá ekki farið að fá skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls ef alveg er hægt að hafa bæði þingmál og dómsmál í gangi samhliða.
    En hvað varðar það að fresta þessari umræðu þá fór ég fram á að frestað yrði 2. umr. en ég skal svo sem ekki leggja mikla áherslu á það ef hæstv. ráðherra er því hlynntur að við getum beðið með 3. umr. þar til þeir tveir þingmenn sem ég nefndi áðan verða viðstaddir. Ég tel þó nokkurn ávinning að því.