Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:05:14 (6314)


[11:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um eitt af einkavæðingarfrv. ríkisstjórnarinnar. Það verður nú að segjast alveg eins og er að þó ég sé ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi að vera mikið í atvinnurekstri umfram það sem nauðsynlegt er vegna hlutverks ríkisins varðandi þjónustu við þegnana, þá finnst mér afar slæmt að núv. ríkisstjórn er búin að halda þannig á málum að það er með sanni hægt að segja að hún hafi komið óorði á einkavæðinguna. Það er stundum sagt að rónarnir hafi komið óorði á brennivínið og ég held að það megi alveg eins segja að núv. ríkisstjórn hafi komið óorði á einkavæðingu. Þannig hefur verið staðið að málum. ( Gripið fram í: Nei, á brennivínið.)
    En ég ætla að gera grein fyrir fyrirvara okkar framsóknarmanna við það nál. sem hér hefur verið lagt fram. Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ég býst við að minn fyrrvari sé ekki alveg eins stór og mikill eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. þannig að það er ekki víst að ég þurfi einn og hálfan tíma til þess að gera grein fyrir honum. ( Gripið fram í: Það er lélegt.) Það finnst hv. þm. lélegt að ég geti ekki komið því upp í einn og hálfan tíma.
    En fyrirvari okkar framsóknarmanna sem skrifum upp á þetta byggist fyrst og fremst á því sem varðar málefni ríkisstarfsmanna. Annars vegar varðandi lífeyrisréttindi og hins vegar varðandi biðlaun. Það er ekki vansalaust fyrir núv. hæstv. ríkisstjórn sem segist tala fyrir einkavæðingu að ekki skuli hafa verið unnið meira í því að fá lausn á þessu máli.
    Um þetta mál var rætt milli aðila BSRB og ríkisins á sl. hausti. Og eftir því sem okkur er tjáð voru aðilar málsins sammála um að taka upp viðræður um þetta mál og leita lausna. Það hefur komið fram hjá þeim fulltrúum ríkisstarfsmanna sem hafa komið til viðræðna við nefndina að þeir séu ekki í prinsippinu á móti einkavæðingu þar sem hún á við en skiljanlega vilji þeir aðilar tryggja að starfsmenn þeirra haldi þeim réttindum sem þeir telja að þeir eigi samningsbundið. Því miður standa mál þannig í dag að það hefur ekkert orðið úr viðræðum milli þessara aðila, milli ríkisstarfsmanna og fjmrn. varðandi þessi atriði. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hverju það sætir, hvernig á því stendur að ekki er farið í viðræður um þessi atriði,
    Ég hef nú gert grein fyrir stærsta fyrirvara okkar framsóknarmanna varðandi þetta mál. Ég mun nú gera grein fyrir því hvers vegna við ákváðum að það væri rétt af okkur að standa að afgreiðslu þessa máls en þó með fyrirvara. Ég tel sérstaka ástæðu til að gera það vegna þess að einmitt þessi starfsemi, þ.e. rekstur fyrirtækis í lyfjaiðnaði, er að mínu mati á mörkum þess sem ég tel eðlilegt að ríkið standi í. Miðað við núverandi aðstæður og þá í raun ríkisverndaðan einkarekstur sem er á lyfjamarkaðnum finnst mér á margan hátt eðlilegt að ríkið verði áfram að einhverju leyti þátttakandi í þeim leik. Það getur nefnilega að mínu mati í einstökum tilfellum stuðlað að heilbrigðari rekstri og samkeppni í vissum greinum að ríkið dragi sig ekki að fullu úr.
    En það er skemmst frá því að segja að frv. eins og það kom frá ríkisstjórninni var meingallað. Ég get nefnt í því sambandi að ekkert hafði verið hugað að því veigamikla hlutverki sem Lyfjaverslun ríkisins hefur gegnt varðandi birgðahald í lyfjum og á það sérstaklega við dreypilyf. Sömuleiðis virtist ekkert hafa verið hugað að því og menn ekki nánast ekki vitað af því hlutverki sem Lyfjaverslun ríkisins gegndi hvað snerti Almannavarnir ríkisins. Það leit út fyrir að það ætti að afgreiða þetta mál án þess að á nokkurn hátt væri gengið frá þessum þáttum. Það kom fram hjá yfirlyfjafræðingi Landspítalans að ef ekki yrðu gerðar neinar aðrar ráðstafanir og þetta fyrirtæki yrði selt að fullu og öllu og teldi sig þar af leiðandi ekki skuldbundið til þess að halda uppi lager til að mynda dreypilyfja, þá yrðu spítalarnir að taka það upp og sjá um þá þætti sjálfir með tilheyrandi birgðahaldi og umsjón með því og þá er að mínu mati vandséð hver hagræðingin og sparnaðurinn af þessu máli væri.
    Þetta leiðir hugann að því að eins og frv. var voru engin skilyrði varðandi söluna. Það var alfarið sett í hendur fjmrh. og hann gat þess vegna, á sama hátt og gert var við SR-mjöl, selt fyrirtækið fyrirvaralaust á einu bretti. Þetta var að mínu mati algerlega óásættanlegt varðandi Lyfjaverslun ríkisins þar sem, eins og ég sagði, hér er um að ræða atvinnugrein þar sem er ríkisverndaður einkarekstur. Það þarf ekki annað en skoða afkomu þeirra sem hafa starfað í þessari grein til þess að sjá hvernig þetta stendur.
    Það var þess vegna skoðun okkar framsóknarmanna í nefndinni að við gerðum mest gagn varðandi málefnið og stöðu þessa fyrirtækis með því að standa að afgreiðslu málsins og þá á forsendu þeirra breytingartillagna sem eru hér lagðar fram á þskj. 682 og víkja að því annars vegar að fjmrh. er einungis heimilt að selja helming hlutabréfanna í fyrirtækinu og að öðru leyti sé það háð samþykki Alþingis ef á að selja meira. Og einnig að við bætist ákvæði til bráðabirgða sem tryggi að staðið verði þannig að birgðahaldi fyrir Almannavarnir og annarri þeirri þjónustu sem Lyfjaverslunin hefur veitt að ekki verði skaði af við þessa aðgerð.
    Ég hef nú farið yfir forsendur þess að við framsóknarmenn í nefndinni skrifuðum undir þetta nefndarálit með fyrirvara og sömuleiðis að hverju sá fyrirvari lýtur. Ég vil að lokum varðandi þann þátt málsins ítreka það og undirstrika að það verður að fást botn í réttindi starfsmanna ríkisins við aðstæður eins og þær sem hér er verið að fjalla um. Það er alveg vonlaust að nánast öll umræða, efnisleg umræða um það hvar ríkið á að taka þátt í rekstri og hvar ekki, skuli steyta á þessu skeri.
    Virðulegur forseti. Ég mun í seinni hluta ræðu minnar fara nokkrum orðum almennt um einkavæðingu og það hvernig ég tel að eigi að standa að málum ef ríkisvaldið og Alþingi ákveða að þau ætli annaðhvort að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag vegna þess að menn telji það hagkvæmara rekstrarform eða að menn ætli að ganga lengra og selja viðkomandi fyrirtæki eða rekstur. Ég benti á það hér áðan að svo væri komið að núv. ríkisstjórn væri búin að koma óorði á einkavæðingu. ( Gripið fram í: Og brennivínið líka.) Og brennivínið líka, er sagt hér úti í sal. Ekki vil ég nú kannski taka undir það. En m.a. með því að setja inn í fjárlög á hverju ári markmið um það hvað einkavæðingin ætti að skila miklu getur að mínu mati leitt til þess að sala ríkisfyrirtækja stjórnist ekki af því markmiði að ná hámarksfjármagni út úr viðkomandi fyrirtæki heldur af því markmiði að stemma af ríkissjóð á viðkomandi ári. Þetta er að mínu mati algerlega óásættanlegt. Og það er því miður alveg rétt eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 6. þm. Vestf., að oft og tíðum finnst manni að nánast sé fjallað um einkavæðingu eins og trúarbrögð og það eigi að einkavæða einkavæðingarinnar vegna. Þess vegna hlýt ég í raun að fagna þeirri yfirlýsingu sem við heyrðum í gær frá bráðabirgðaborgarstjóra sjálfstæðismanna í Reykjavík þar sem hann lýsti því sem sinni stefnu að þar sem ekki væri um að ræða virka samkeppni þar ætti ekki að einkavæða. Ég held að Reykjavíkurborg hefði átt að hafa þetta í huga þegar þeir fóru í einkavæðingarátök á síðasta ári og sleppa strætisvögnunum, en hugsanlega hefði mátt einkavæða rörasteypur, veitingahús og ýmsan annan rekstur sem er rekinn á vegum Reykjavíkurborgar. Það er að mínu mati nánast furðulegt hvað Reykjavíkurborg hefur gengið langt í því að reka starfsemi í beinni samkeppni við þegnana í sveitarfélaginu. Og það er eiginlega afar sérstætt að stuðningsmenn Sjálfstfl. í Reykjavík, ég hygg að verulegur hluti atvinnurekenda hér séu stuðningsmenn Sjálfstfl., skuli hafa látið flokkinn komast upp með þetta. Þannig að ég hlýt að fagna þessar yfirlýsingu bráðabirgðaborgarstjóra Reykjavíkurborgar.
    Ég get hins vegar alveg viðurkennt þau rök að á ýmsum sviðum sé æskilegt fyrir ríkið að þau fyrirtæki sem ríkið á séu í formi hlutafélaga, en þá þurfi ekki að rugla því saman við einkavæðingu. Ég hef svolítið velt því fyrir mér í þeirri umræðu sem hefur verið undanfarið um breytingar á lögum sem snúa að rekstrarformi með framlagningu frumvarpa til nýrra laga um hlutafélög, til nýrra laga um eignarhlutafélög, sem eru í raun einfaldari gerð af hlutafélögum, þar sem hluthafarnir geta verið niður í það að vera einn. Vantar okkur ekki eitt formið enn? Þyrftum við ekki að vera með form sem héti ríkishlutafélag, sem væri þá skammstafað rhf., hlutafélag þar sem yfirlýst stefna væri að þar væri um að ræða svið sem ríkið ætlaði að vinna að áfram? Það ætlaði ekki að selja hlut í félaginu, en menn teldu að með hliðsjón af því að einhver hluti starfseminnar væri í samkeppni við aðila á hinum almenna markaði og vegna samstarfs félagsins við aðra aðila bæði innan lands og erlendis væri æskilegra að það starfaði í grundvallaratriðum eftir sama formi og önnur fyrirtæki. Ég gæti til að mynda séð fyrir mér að Póstur og sími yrði ríkishlutafélag. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér og sé enga skynsemi í því að ríkið færi að selja hlut í Pósti og síma. Þess vegna varpa ég því hér fram í umræðuna hvort ekki væri æskilegt að við kæmum með nýtt form, nýtt afbrigði af hlutafélögum, sem væri þá þriðja afbrigðið, við hliðina á almennum hlutafélögum og eignarhlutafélögunum sem væru ríkishlutafélag.
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að koma að einu í framhaldi af þessu, hvernig ég sé fyrir mér og tel að ríkið eigi að standa að málum ef það er að selja rekstur sem það hefur staðið í. Við getum dregið lærdóm af SR-málinu og það á ekki að standa að málum eins og þar er gert. Að mínu mati verður að standa á allt annan hátt að þeim hlutum. Ég tel að það eigi að gera á þann hátt, ef ég tek dæmið af SR-mjöli, sem ég hygg að hafi verið og sé hér á Alþingi mikill meirihlutavilji fyrir því að því félagi hafi verið breytt í hlutafélag og eftir atvikum selt. Ég tel að að þessu eigi að standa þannig að það sé byrjað á því að breyta viðkomandi rekstri í hlutafélag. Síðan eigi að selja nægjanlega marga litla smáa hluti í félaginu til þess að hægt sé að skrá félagið sem almenningshlutafélag og það geti komist inn á hinn almenna hlutafjármarkað. Síðan verði beðið eftir því að viðkomandi félag taki verð á hinum almenna markaði og þá fyrst, þegar hlutabréfamarkaðurinn, sem er að styrkjast betur hér á landi, er búinn að gefa viðkomandi fyrirtæki verð, verði hugað að frekari sölu. Þá losnum við við þessar eilífu deilur um það hvort við höfum verið að gefa viðkomandi félag. Og ég sé ekkert til að mynda varðandi SR-mjöl sem rak svo á eftir að ekki hefði verið hægt að fara þessa leið.
    Virðulegur forseti. Ég mun því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. --- ég mun, virðulegur forseti, bíða eftir að hann ljúki samtali sínu hér úti í sal. Ég mun því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann geti ekki verið sammála mér í því að sú leið sem ég nefndi í síðasta kafla ræðu minnar, hvernig væri skynsamlegt að standa að sölu ríkisfyrirtækja, sé skynsamleg. Nú veit ég ekki, virðulegur forseti, hvort hæstv. ráðherra heyrði orð mín og hvort hann veit þá um hvað ég er að spyrja. Hann var nokkuð upptekinn hér úti í sal. En ef svo er þá get ég endurtekið það í örfáum orðum. Í máli mínu kom fram að ég tel að það eigi að standa þannig að sölu hlutafélaga, ef ríkið ákveður að selja þau, að það sé byrjað á því að selja nægilega marga smáa hluti í fyrirtækinu, það þarf ekki að vera há prósentutala, til þess að hægt sé að skrá hlutafélagið sem almenningshlutafélag á markaði. Láta síðan hlutabréf í fyrirtækinu taka verð á almennum markaði og þá fyrst sé tímabært að huga að frekari sölu. Þá þurfa menn ekki að standa

í stöðugum deilum um það hvort fjmrh. í það og það skiptið sé að gefa fyrirtækið, sé að hygla einhverjum vinum sínum, sé að færa kolkrabbanum fyrirtækið á silfurfati, svo við nefnum bara einhver af þeim ummælum sem hafa fallið í umræðunni um SR-mjöl.
    Virðulegur forseti. Að lokum ætla ég aðeins að koma að því hvernig einkavæðingarreikningur núv. ríkisstjórnar stendur. Ég er alls ekki viss um hvort hann er neikvæður eða jákvæður. Ef við tökum annars vegar þau tilfelli þar sem ríkissjóður hefur verið að selja fyrirtæki og hins vegar þau tilfelli þar sem ríkið og þá fyrst og fremst félög sem eru 100% í eigu ríkisins hafa verið að yfirtaka fyrirtæki og rekstur á síðustu árum. Það er nokkuð greinargott yfirlit yfir það í Morgunblaðinu í gær sem reyndar byggist á svari við fyrirspurn frá hv. 1. þm. Vestf. þar sem tíunduð er eign bankanna í hlutafélögum. Það er að vísu að nokkru leyti ófullnægjandi upptalning að mínu mati því á bak við margar tölurnar þar standa í raun miklu meiri eignir heldur en kemur fram í hlutafjáreignunum, en það eru þá væntanlega skuldir á móti þeim eignum. En það eru engu að síður mikil verðmæti. Og ég er, virðulegur forseti, sannfæður um að ef við leggjum þetta saman, annars vegar það sem ríkið hefur verið að selja og hins vegar það sem ríkið hefur verið að yfirtaka á síðustu árum, þá hljóti eftirmæli þessarar ríkisstjórnar að vera þau að þetta hafi verið einhver mesta þjóðnýtingarstjórn á þessari öld.
    Nú vil ég taka það fram að ég er ekki með þessu í sjálfu sér að gagnrýna þær aðgerðir sem til að mynda ríkisbankarnir hafa gripið til til þess að verja sína hagsmuni. Ég tel að þar hafi í nánast öllum tilfellum verið staðið rétt að málum og mælti fyrir því strax á haustdögum 1991 í þinginu að við yrðum að búa þannig um hnútana að bankarnir, til þess að verja sína hagsmuni, sem að mínu mati eru í flestum tilfellum sameiginlegir hagsmunir viðkomandi byggðarlaga og viðkomandi atvinnustarfsemi, þyrftu að fá víðtækari heimildir en þeir höfðu þá til þess að ganga í mál með þessum hætti. Það er búið því betur að breyta viðskiptabankalögunum í þá veru að þeir geta gert það. En ég er jafnframt þeirrar skoðunar að þarna sé um að ræða neyðarráðstafanir til þess að bregðast við ástandi sem er fyrst og fremst til komið vegna kolvitlausrar peningastjórnunar á umliðnum árum og nú eru menn kannski ekkert endilega að tala um núv. ríkisstjórn. Það vaxtafár sem við höfum verið að fást við á umliðnum árum hófst nú reyndar fyrr. Það hófst því miður miklu fyrr. Ég færði að því rök í ræðu í fyrravetur að ef við tækjum sex ára tímabil hárra vaxta og gæfum okkur að vextirnir á því tímabili hefðu að meðaltali verið 3% hærri heldur en eðlilegt getur talist og atvinnulífið stæði undir þá hefði það á þeim tíma fært frá skuldsettum fyrirtækjum og skuldsettum heimilum í landinu 80 milljarða til þeirra sem áttu fjármagnið. Og það er ekkert mikið þó að bankar og fjármálastofnanir hafi þurft að grípa til róttækra aðgerða eftir slíkt tímabil. Það er ekkert mikið þó að þetta tímabil hafi gert það að verkum, eins og ég sagði áðan, að eftirmæli þessarar ríkisstjórnar hvað þetta snertir verði væntanlega þau að hún verði einhver mesta þjóðnýtingarstjórn á þessari öld.
    Virðulegur forseti. Ég fer senn að ljúka ræðu minni að þessu sinni. Ég hef rökstutt fyrirvara okkar framsóknarmanna í efh.- og viðskn. og hvers vegna við ákváðum að standa að frv. Ég tel að með þeim breytingum sem þarna náðust fram sé í raun verið að forða slysi og ég hef síðan einnig fært rök að því að núv. ríkisstjórn og núv. hæstv. fjmrh. hafi mistekist hrapallega varðandi þann þátt sem snýr að sölu ríkisfyrirtækja. Það er slæmt vegna þess að það er ekki hlutverk ríkisins að standa í atvinnurekstri sem er í beinni samkeppni við hinn almenna markað. Þess vegna þurfa menn að standa þannig að þessum málum að allar aðgerðir séu trúverðugar og njóti trausts almennings. En í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, hefur ríkisstjórninni mistekist að vinna traust almennings og hagsmunaaðila þegar kemur að framkvæmdinni.