Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:34:19 (6315)


[11:34]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka stuðning Framsfl. og ég tel víðtæka samstöðu æskilega í þessu máli. Í öðru lagi vil ég láta það koma fram að það eru auðvitað margar aðferðir sem hægt er að nota við einkavæðingu og mér finnst sú sem hv. þm. nefndi vera ágæta og nefni sem dæmi í því sambandi sölu ríkisins á hlutabréfum í Þormóði ramma þar sem farið var að með nákvæmlega þeim hætti.
    Í þriðja lagi þá verð ég að taka fram vegna fjárlagatalna að það er skylda okkar að setja fram tölur í fjárlagaáætlun og þess vegna er tölur að finna þar. Þá vil ég segja að í frv. eru taldar upp skyldur Lyfjaverslunar ríkisins þannig að það hafði ekkert farið fram hjá fjmrn. að setja þær skyldur eða vita hvaða skyldur þar væru á ferðinni því þær komu fram í grg. frv.
    Loks vil ég, virðulegi forseti, og það er kannski það sem skiptir mestu máli í mínu andsvari, segja frá því að í kjarasamningunum sem gerðir voru 1992 kom fram að það var ágreiningur milli ríkisins og BSRB um túlkun á 14. gr. laga frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það mál er ekkert leyst á milli þessara aðila. Í samningunum 1993 eða haustið 1993 skrifaði ég BSRB bréf, 28. nóv., þar sem boðið var upp á samráð og samráðsvettvang um mál sem snerta nýskipun í opinberum rekstri, ríkisrekstri, og 10. febr. sendi ég bréf þar sem tilnefndir voru fimm menn af hálfu ríkisins. Þessi samráðshópur hefur hist nokkrum sinnum og fyrirliði hóps ríkisins er Steingrímur Ari Arason og þar hefur verið fjallað um þau mál sem snerta m.a. einkavæðinguna. Þetta vildi ég að kæmi hérna fram því ég skildi mál hv. þm. þannig að hann teldi að ekki hefði orðið úr þessum viðtölum.