Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:36:21 (6316)


[11:36]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það liggur ljóst fyrir að fulltrúum ríkisstarfsmanna finnst lítið hafa orðið úr efndum varðandi það að taka á þessu sérstaka máli sem varðar réttindi ríkisstarfsmanna í tilfellum sem þessum. Þannig að ég stend við þann hluta minnar ræðu.
    Varðandi þær hugmyndir sem ég setti hér fram um hvernig mér fyndist að ætti að standa að því ef ríkið kysi að selja rekstur sem væri í þess eigu og hæstv. ráðherra benti á að þannig hefði verið staðið að málum varðandi Þormóð ramma. Það er rétt að að nokkru leyti var þeirri forskrift fylgt sem ég nefndi í minni ræðu, en þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað lá svona mikið á varðandi sölu á SR-mjöli að ekki var hægt að fara sömu leið þar? Setja lítinn hluta bréfanna á markað, tryggja nægjanlegan fjölda kaupenda til að hægt væri að skrá fyrirtækið á almennum markaði og sjá síðan til á svona tveimur til þremur árum hvaða verð þessi bréf tækju á almennum markaði.
    Ég vil ganga eftir því við hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ekki hægt að gera þetta varðandi SR-mjöl?