Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:41:36 (6319)


[11:41]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt finnst mér að undirstrika í þessu máli og ég vil veita andsvar við því sem fram kom í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. að rekstur lyfjaverslunar sé á mörkum þess sem ríkið eigi að standa í. Auk þess ætlaði ég reyndar að varpa orði á hæstv. fjmrh. ( JGS: Ekki í andsvari.) Ég get varpað orði á hæstv. fjmrh. í andsvari, jú. --- á mörkum þess sem ríkið eigi að standa í. Ég er algjörlega andsnúinn þessu sjónarmiði. Ég tel að ríkið eigi að reka lyfjaverslun. Ég tel að ríkið eigi að reka apótek eins og það gerir og hefur engum dottið í hug að taka Reykjavíkurapótek af Háskóla Íslands. Það eru engin frumvörp um það uppi. Ríkið á að vera í þessum rekstri einmitt af því að þetta er heilbrigðisþjónusta. Ég bendi á að á árunum 1980--1983 flutti þáv. ríkisstjórn frv. um að flytja Lyfjaverslunina undir heilbrrn. og það hefði auðvitað verið eðlilegt að vera hér að fjalla um frv. um að flytja Lyfjaverslun ríkisins undir heilbrrn. Það væri eðlilegur þáttur málsins.
    Hitt vil ég segja. Þær upplýsingar sem hafa komið fram í máli fjmrh., í andsvari við hv. 6. þm. Norðurl. e., eru með þeim hætti að það á auðvitað að fresta 2. umr. um málið núna --- núna, af því að það standa yfir viðræður við BSRB og sveitarfélögin og aðra aðila um réttarstöðu starfsmanna og þá á auðvitað að fresta 2. umr. núna, halda síðan áfram þessum viðræðum við þessa aðila, en ekki að keyra málið í gegnum þingið eins og nú virðist vera ætlunin. Ég skora á hæstv. fjmrh. þó í andsvarstíma sé að beita sér fyrir því að ljúka viðræðunum við BSRB með sáttum og ýta þessum málum út af borðum Alþingis á meðan.