Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:48:40 (6322)


[11:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að stuðningur minn við þetta mál eins og það liggur núna byggist m.a. á því að okkur tókst í meðförum málsins að breyta því í þá veru að það væri eftir föngum reynt að tryggja það að ríkið hefði afskipti af þessum málum áfram. Ég vek athygli hv. þm. á því að, að ég hygg, á svipuðum forsendum skrifaði fulltrúi Alþb. í nefndinni undir þetta nál. með fyrirvara og ég hef ekki heyrt að hann hafi horfið frá því.

    En varðandi réttindamál starfsmannanna þá hljótum við að knýja á um það að í tengslum við afgreiðslu þessa máls þá fáum við miklu afdráttarlausari yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh. um að gengið verði til móts við ríkisstarfsmenn hvað þetta mál varðar. Ég hlýt að vænta þess að áður en afgreiðslu þessa máls lýkur á Alþingi þá fáum við frá hæstv. fjmrh. mun ákveðnari yfirlýsingar um það að gengið verði í þessi mál og það verði gengið til samninga um þau. Það er alveg hægt að semja um mál þó þau séu komin til dómstóla. Hæstv. fjmrh. veit sem lögfræðingur að það er ekki óalgengt að málum sem eru fyrir dómi sé lokið með sátt.
    Virðulegur forseti. Ég hlýt annars að biðjast afsökunar á því að þessi andsvaraumræða hefur leiðst nokkuð út í viðræður við hæstv. fjmrh. sem ekki hefur tök á að svara fyrir sig.