Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 16:08:44 (6343)


[16:08]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur býsna víðar skírskotanir. Það er ekki bara einkavæðingarmál eins og það hefur stundum verið kallað úr ræðustólnum í dag heldur er þetta miklu víðara en svo. Þetta er líka heilbrigðismál og félagslegt mál, lífskjarajöfnunarmál, og þess vegna er eðlilegt að farið sé dálítið yfir það í umræðunni. Ég ætla í sjálfu sér ekki að bæta neinu við það sem hér hefur verið sagt að öðru leyti en því að fara lauslega yfir þetta mál eins og það snýr, að mér sýnist, frá sjónarmiði starfsmannanna.
    Í fyrravetur og ég hygg í hittiðfyrra líka tókum við nokkrar snerrur um réttindamál ríkisstarfsmanna úr þessum virðulega ræðustól. Þá lét ég þau orð falla að ég teldi eðlilegt að til væru reglur sem kvæðu á um það hvernig ætti að einkavæða fyrirtæki. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því að það gerist alloft að ríkisfyrirtæki eða opinber fyrirtæki, sveitarfélagafyrirtæki, séu einkavædd með einhverjum hætti. Ég bendi í því sambandi t.d. á fyrirtæki sem við stóðum að því að einkavæða á sinni tíð og heitir Ríkisprentsmiðjan Gutenberg og ég bendi líka á fyrirtækið Jarðboranir ríkisins hf. sem við áttum aðild að að einkavæða. Til þess hins vegar að hægt sé að gera þetta með sæmilegum hætti þá þarf að vera sátt um það á milli þeirra sem eiga fyrirtækið, þ.e. ríkisins eða sveitarfélaganna annars vegar og starfsmannanna hins vegar, þ.e. BSRB og annarra skyldra samtaka, um það hvernig þetta ferli á að vera. Hvernig farið er með biðlaun, hvernig farið er með lífeyrisréttindi, hvernig farið er með verðtryggingu lífeyrisréttinda o.s.frv.
    Það er í raun og veru mjög mikilvægt að það náist sátt um þetta ferli þannig að menn séu ekki langtímum saman að takast á um hlutina pólitískt í þessari stofnun og í kringum hana eða fyrir dómstólum eins og dæmin sanna. Þessi mál hafa stundum verið lögð fyrir dómstóla og hefur þar raunar ýmsum vegnað betur og ríkinu reyndar yfirleitt verr þegar upp er staðið.
    Á síðasta þingi hvöttum við mjög til þess að hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir svona viðræðum við starfsmenn vegna Sementsverksmiðja ríkisins, Síldarverksmiðja ríkisins og kannski fleiri fyrirtækja sem þá voru til umræðu. Því miður varð ekkert úr þessu á þeim tíma og ég las málið þannig að hæstv. fjmrh. hefði ákveðið að sinna því ekki með þeim hætti sem við lögðum til vegna þess að hann teldi að hann hefði í raun og veru ekki stöðu til þess að fara í eðlilegar samningaviðræður við opinbera starfsmenn um þessi mál. Hins vegar gerðist það svo á sl. hausti hygg ég að það hafi verið, í september eða desember og síðan var það ákveðið að ég held núna eftir áramótin endanlega, hófust núna eftir áramótin, ég held í febrúar, viðræður á milli stéttarfélaganna, ríkisins og sveitarfélaganna um þessi mál, um aðferðina við breytingu á svona fyrirtækjum og um stöðu starfsmannanna í því sambandi.
    Hæstv. fjmrh. greindi reyndar frá því fyrr í dag að þær viðræður væru í fullum gangi og af þeim ástæðum er það, hæstv. forseti, sem ég vil beina því mjög eindregið til hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sem einnig er hér staddur að þeir íhugi það mjög vandlega að fresta algerlega meðferð þessa máls til haustsins eða þangað til niðurstöður fást úr þessum viðræðum milli ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það sem hæstv. fjmrh. hefur bent á áður að þær viðræður snúast ekki bara um Lyfjaverslun ríkisins. Þær snúast náttúrlega um þessi fyrirtæki yfirleitt og breytingar á þeim. En Lyfjaverslun ríkisins er auðvitað partur af því máli. Mér finnst dálítið harkalegt að afgreiða þetta mál hér og gera það að lögum í andstöðu við opinbera starfsmenn eins og það liggur fyrir og ætla sér samt sem áður að ná árangri í viðræðunum. Mér finnst það ekki sanngjörn krafa af hálfu ríkisins gagnvart opinberum starfsmönnum. Mér finnst að það væri sanngjarnt af fjmrn. í þessari stöðu, ef fjmrn. vill ná varanlegum árangri og setja reglur til langs tíma í þessu sambandi, að leggja þetta frv. til hliðar og taka það síðan almennum tökum þegar endanlega lægju fyrir niðurstöður um það hvernig farið er með réttarmál opinberra starfsmanna þegar fyrirtæki eru einkavædd eins og það heitir.
    Nú liggur það fyrir að það er mjög þung andstaða við þetta mál, hæstv. forseti. Það liggur t.d. fyrir bréf frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana þar sem er lagst algerlega gegn frv. Þetta bréf er dags. 4. maí 1993 og mér er ekki kunnugt um að sú afstaða sem þar kemur fram t.d. hafi breyst á nokkurn hátt. Ég bendi einnig á að það hefur borist bréf frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna þar sem þessu frv. er einnig mótmælt mjög ákveðið og það hefur borist bréf eða álitsgerð starfsmanna Lyfjaverslunar ríkisins í BSRB, en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins hafa kynnt sér frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og viljum við koma eftirfarandi áliti á framfæri. Uppi eru skiptar skoðanir varðandi þær breytingar sem fram undan eru hjá fyrirtækinu. Þar sem við teljum að vegið sé að áunnum réttindum okkar og atvinnuöryggi munum við leggja sérstaka áherslu á að þessir þættir verði tryggðir í framtíðinni. Við

viljum einnig mótmæla harðlega 3. gr. frv. og teljum að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eigi við og það sé ekki hægt að ógilda eina grein laganna.
    Virðingarfyllst, f.h. starfsmanna Lyfjaverslunar ríkisins í BSRB.
    Sigurlaug Sigurðardóttir trúnaðarmaður og Jóhanna Jóhannsdóttir trúnaðarmaður.``
    Þá hefur einnig borist til Alþingis umsögn um málið frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja þar sem er í raun og veru mjög ákveðið farið fram á það að ríkið afgreiði frv. ekki svona. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja hefur borist til umsagnar frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins. BSRB ítrekar umsögn sína frá 5. maí sl. um samhljóða frv. og fylgir hún hér með í ljósriti. Í 42. gr. og 43. gr. laga um Lyfjaverslun ríkisins, nr. 76/1982, er kveðið á um skyldur Lyfjaverslunar ríkisins sem lúta að almannavörnum og almennum öryggissjónarmiðum. Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um það hver eigi að rækja þessar skyldur og hvar sá tilkostnaður komi til með að lenda ef Lyfjaverslun ríkisins verður lögð niður. Ástæða er til að vekja athygli á því að sitthvað í greinargerð þeirri sem fylgir frv. er mótsagnarkennt. Þannig segir t.d. að ýmislegt bendi til þess að einkavæðing fyrirtækisins geti orðið til góðs fyrir ríkissjóð. Síðan er gerð grein fyrir tugmilljónakróna hagnaði sem Lyfjaverslun ríkisins skilar í ríkissjóð á árinu.``
    Hér er bersýnilega um mjög ákveðna andstöðu við málið að ræða af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og af þeirri ástæðu hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum finnst í raun og veru sanngjarnt miðað við andstöðu stéttarfélaganna og miðað við þær viðræður sem núna standa yfir á milli opinberra starfsmanna annars vegar og fjmrn. hins vegar að halda viðræðunum áfram eins og ekkert hafi í skorist en samt jafnframt að keyra frv. í gegnum þingið. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að halda þannig á málum og ég skora á hæstv. fjmrh. að endurskoða þessa afstöðu sína, láta viðræðunum ljúka áður en málinu verður lokið. Mér skilst að þessar viðræður séu reyndar ekki aðeins á milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisins, heldur komi þar einnig við sögu t.d. Samband ísl. sveitarfélaga. Mér skilst að í þessum viðræðum séu einnig að einhverju leyti fulltrúar Reykjavíkurborgar og þarna sé fjallað um framtíðarskipan þessara mála og réttarstöðu þess fólks sem vinnur hjá þessum opinberum fyrirtækjum ef þau verða gerð að einkafyrirtækjum. Ég held satt að segja að þau áföll sem Sjálfstfl. hefur orðið fyrir í vetur, sérstaklega vegna einkavæðingarákafa síns, t.d. í strætisvagnamálinu, sé auðvitað með þeim hætti að Sjálfstfl. ætti að hafa lært að ganga hægt um gleðinnar í dyr í þessu máli og að skoða hlutina aðeins betur en gert hefur verið.
    Hæstv. fjmrh. hreyfði þeirri hugmynd fyrr í dag að fresta gildistökunni. Í frv. er gert ráð fyrir því að gildistakan verði 1. maí og hæstv. ráðherra bauð upp á það að þetta yrði 1. júlí. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta í raun og veru ekkert tilboð vegna þess að þá hefur Alþingi tekið ákvörðun um að gera þetta, að einkavæða fyrirtækið þó að það séu þessi helmingaskipti sem gert er ráð fyrir í brtt. Svo að ég segi alveg eins og er þá held ég að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ættu að skoða hug sinn aðeins betur í þessu máli og fáist ekki 2. umr. frestað, þá sé óhjákvæmilegt að láta á það reyna í hv. efh.- og viðskn. að málinu verði hreinlega frestað í vor þannig að það komi ekki til 3. umr. á nýjan leik á þessu þingi heldur fái frekari meðferð í þessum samningaviðræðum á milli aðilanna.
    Ég tel að sá veruleiki sem ég er að tala fyrir hafi í raun ekkert með pólitík að gera. Hann hefur ekkert með það að gera hvort menn vilja einkavæðingu eða ekki. Ég tel að hérna sé á ferðinni það sem kalla mætti rödd skynseminnar. Það er í raun og veru bara verið að segja: Við skulum koma þessum hlutum fyrir eins haganlega og sanngjarnt og kostur er og ég er alveg viss um að hæstv. fjmrh. verður sammála mér ef hann skoðar málin aðeins betur en mér virtist hann hafa gert fyrr í dag. Ég vil þess vegna ítreka það að ég tel að það sé mikilvægt að á þessu máli verði tekið og þessari umræðu verði frestað af því að það standa yfir viðræður við stéttarfélögin og það á ekki að vera að ganga yfir þau á skítugum skónum á einn eða annan hátt.
    Ég ætla þessu næst, hæstv. forseti, eftir að hafa farið lauslega yfir stöðu starfsmannanna að víkja aðeins að þessu fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins og segja það að þetta er eitt af allra merkilegustu fyrirtækjum landsins. Þetta er öryggisfyrirtæki. Þetta er í raun og veru einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Ég tek eftir því að þeir framsóknarmenn orða þetta þannig að það sé á mörkunum að ríkið eigi að standa í rekstri fyrirtækis eins og Lyfjaverslunar ríkisins. Ég er alveg ósammála þessu sjónarmiði. Ég tel að ríkið eigi að reka fyrirtæki eins og Lyfjaverslun ríkisins, m.a. til að hafa aðhald að lyfjaheildsölum og öðrum slíkum aðilum og lyfjaframleiðendum í landinu og ég tel eðlilegt að ríkið reki líka eða hafi mjög beinan aðgang að rekstri apóteks svo að ég nefni dæmi til þess að geta borið saman rekstrarkostnað þann sem er á vegum hins opinbera fyrirtækis annars vegar og einkafyrirtækjanna hins vegar til þess að hægt sé að taka eðlilegar ákvarðanir í lyfjaverðlagsnefnd um hvað álagning á lyf á að vera mikil o.s.frv.
    Ég held þess vegna að það eigi að líta á Lyfjaverslun ríkisins sem heilbrigðismál. Hún er heilbrigðismál og þess vegna hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru eðlilegt að Lyfjaverslun ríkisins heyri undir heilbrrn. Lyfjaverslun ríkisins er með þeim hætti og þegar ég var heilbrrh. á árunum 1980--1983, þá var flutt hér stjfrv. um það að færa Lyfjaverslunina yfir til heilbrrn. Ég man ekki betur en það hafi verið gert með samþykkt hér í þessari virðulegu stofnun en snúið við aftur að bragði strax

árið eftir þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi tekið við vorið 1983. Ég held að þennan þátt eigi að hugsa um og það sem ég sakna í sambandi við málsmeðferð í þessu máli er m.a. hvert álit heilbrrn. er. Hefur heilbrrn. fjallað um þetta mál sérstaklega sem heilbrrn.? Hefur landlæknisembættið sem er að senda frá sér alveg furðulega lista með beiðni um krossapróf frá þingmönnum og fleirum, hefur landlæknisembættið eitthvað fjallað um þetta frv., tekið afstöðu til þess? Landlæknisembættið er samkvæmt lögum ráðgjafi heilbrrh. í heilbrigðismálum og á þess vegna í raun og veru að fjalla um afgerandi mál af þessum toga. Mér sýnist ekki að nokkrum einasta manni hafi dottið það í hug, hvorki í ráðuneytinu né annars staðar, að kalla eftir áliti landlæknis. Ég hef a.m.k. ekki séð það álit og auglýsi eftir því hér en er vís með að gera það á öðrum vettvangi líka. En fyrir utan það að vera heilbrigðismál þá er þetta auðvitað fyrirtæki og það er eina hliðin sem ríkisstjórnin sem nú situr í landinu sér á þessu fyrirtæki að þetta sé fyrirtæki. Hún upplifir þetta sem fyrirtæki, rekstrar- og atvinnufyrirtæki og hjá ríkisstjórninni nú heitir þetta þess vegna ekki heilbrigðismál heldur heitir þetta einkavæðingarmál. Það má auðvitað segja að það sé að verða álíka viðamikill og vandasamur málaflokkur í þjóðfélaginu í seinni tíð og heilbrigðismálin, þessi einkavæðingarmál. Þetta er að verða a.m.k. alveg óskaplegur sjúkdómur sem herjar á núverandi ríkisstjórn. Bráðabirgðaborgarstjórinn í Reykjavík hafði hins vegar tekið ákvörðun um að hætta þessu fram yfir kosningar.
    En Lyfjaverslun ríkisins er þess vegna fyrirtæki. Hvernig fyrirtæki er Lyfjaverslun ríkisins? Lyfjaverslun ríkisins er fínt fyrirtæki líka. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992 kemur það fram að heildartekjur þessa fyrirtækis námu um 830 millj. á síðasta ári en gjöldin 760. Hagnaðurinn af þessu fyrirtæki var nær 70 millj. kr. á sl. ári. Það sem hins vegar hefur verið staldrað við af Ríkisendurskoðun í sambandi við þetta mál er kannski ekki síst það að það hefur verið á döfinni af hálfu núv. ríkisstjórnar að selja þetta fyrirtæki um skeið og um þessi mál segir hér í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 106, með leyfi hæstv. forseta
    ,,Á Alþingi var lagt fram frv. um að fyrirtækinu væri breytt í hlutafélag og það selt. Það vekur athygli að á meðan frv. er til afgreiðslu á Alþingi er ráðist í kostnaðarsamar endurbætur og skipulagsbreytingar á fyrirtækinu. Framkvæmdirnar gætu takmarkað möguleika nýrra eigenda á að móta framtíðarstefnu fyrirtækisins og óvíst er að kostnaður vegna endurbótanna skili sér við sölu en hann er áætlaður um 235 millj. kr. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda hefur Lyfjaverslunin ekki greitt arð í ríkissjóð frá árinu 1989 þrátt fyrir umtalsverðan hagnað á tímabilinu. Lyfjaverslunin átti samkvæmt fjárlögum 1992 að greiða 62 millj. kr. í vexti og afborganir vegna skuldar fyrirtækisins við ríkissjóð. Í árslok var hins vegar gerður samningur við fjmrn. sem fól í sér að gefið var út skuldabréf til fimm ára þannig að greiðslan á árinu varð aðeins 18,5 millj. kr. Ekki var leitað heimildar Alþingis til breytinga á ákvæðum fjárlaga hvað þetta varðar.``
    Hér er auðvitað afskaplega undarlega að hlutunum staðið, hæstv. forseti, hvað varðar þetta þjóðþrifafyrirtæki Lyfjaverslun ríkisins. Það er gert ráð fyrir því að fyrirtækið skili 62 millj. kr. í ríkissjóð. Það stendur í fjárlögunum. En hins vegar tekur fjmrn. fram fyrir hendurnar á Alþingi í þessu máli, fjárveitingavaldinu og ákveður að það verði gefið út skuldabréf til fimm ára vegna þessara mála þannig að greiðslan á ári verði aðeins 18,5 millj. kr. en ekki 62 og að fjármunirnir séu notaðir til þess að standa undir þeim framkvæmdum sem eru í gangi í fyrirtæki sem á að fara að selja. Satt best að segja, hæstv. forseti, ég er ekki alveg viss um þetta sé skynsamleg aðferð við að selja fyrirtæki, ég er ekki viss um það. En það getur vel verið að núv. hæstv. fjmrh. telji þetta skynsamlega aðferð við að selja fyrirtæki. Mér finnst þetta nokkuð sérkennilega að hlutunum staðið og auðvitað væri svo sem í þessu sambandi hægt að ræða dálítið um það hvernig Alþingi stendur að afgreiðslu fjárlaga. Ég held að ég hafi aldrei séð annað eins og í athugasemdum Ríkisendurskoðunar við framkvæmd fjárlaga þar sem það kemur fram að fjárveitingavaldið ákvað að láta ríkisstjórnina hafa allt of mikið af peningum. Það er bara á fjórða milljarð sem ríkisstjórnin fær aukalega umfram það sem hún þurfti að nota og það er náttúrlega alveg ótrúlegt vegna þess að inni í þessu, hæstv. forseti, eru t.d. framkvæmda- og stofnfjárframlög sem þeir sem eiga að fá hafi venjulega talið að væru skuldbindandi fyrir ríkið og þeir ættu rétt á að heimta, jafnvel bara með kröfum á ríkið, en þegar upp er staðið þá er niðurstaðan sú að þarna er bil upp á 3--4 milljarða kr. Það er kapítuli út af fyrir sig og væri ástæða til að ræða hér framkvæmd fjárlaga í seinni tíð. Það er alveg ótrúlegt hvernig að því er staðið. Látum það nú vera. En hitt er sérkennilegt að þetta ágæta fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins, getur skilað þetta miklum hagnaði og svo er ákveðið að leggja í breytingaframkvæmdir upp á 235 millj. kr. á sama tíma og á að fara að selja fyrirtækið. Það kveður svo rammt að þessu að jafnvel Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við málið. Og eins og kunnugt er hefur hún verið alveg ótrúlega hógvær í seinni tíð í sambandi við hin ýmsu mál og ekki verið að slá stórar keilur í athugasemdum sínum varðandi einstaka hluti þannig að það er bersýnilegt að bragð er að þá barnið finnur og henni blöskrar, ríkisendurskoðanda blöskrar svo gersamlega að hann má ekki við bindast og hefur rúmlega hálfa blaðsíðu um þessi ótrúlegu mál sem eru vinnubrögð hæstv. fjmrh. í þessu máli. Allt þetta finnst mér benda til þess að það eigi að leggja málið til hliðar til haustsins.
    Ég tek eftir því, hæstv. forseti, að það er mikið samsafn af sómamönnum og snillingum sem skrifa undir nefndarálitið um þetta mál. Þar eru margir úrvalsmenn ( Fjmrh.: Þar á meðal varaformaður Alþb.) og þar á meðal varaformaður Alþb. Hann hefur hins vegar skýrt frá því hér í umræðum að hann telji að þetta mál verði að skoða miklu betur, sérstaklega vegna starfsmannanna og réttinda þeirra. Hann skýrði

einnig frá því í þeirri ræðu sem hann flutti hér að þegar um málið var fjallað í hv. efh.- og viðskn. þá hafi hann gert grein fyrir því að í þingflokki Alþb. væru aðilar sem mundu jafnvel leggjast gegn málinu að einhverju leyti og ég verð að játa það að ég er kannski sá sem hann hefur verið þar að vitna til. Ég geri ráð fyrir því og reyndar hlýt að upplýsa það að meginástæðan fyrir andstöðu minni við þetta frv. er sú að ég tel að ríkið eigi að eiga lyfjaverslun af þessu tagi og af því að þetta sé heilbrigðismál. Í öðru lagi leggst ég gegn þessu frv. eins og það er og að þessu er staðið vegna þess að fjmrh. er í viðræðum við ríkisstarfsmenn um það hvernig á þessum málum á að halda og mér finnst það ekki heiðarlegt að róta í gegn lögum með meiri hluta á Alþingi á sama tíma og þessar viðræður standa yfir.
    Í frv. sem hæstv. ríkisstjórn flytur þá er auðvitað eins og gengur farið nokkuð ítarlega yfir málin í greinargerðinni þó það mætti vera ítarlegra. Þar er auðvitað flokkspólitísk einokun stjórnarflokkanna á undirbúningi málsins eins og venjulega. Það er stefnan í þessari ríkisstjórn að láta alltaf eins og stjórnarandstaðan sé ekki til og að kalla stjórnarandstöðuna aldrei á vettvang í einu einasta máli. Það kemur að vísu fyrir að hæstv. félmrh. verður á sá fingurbrjótur að kalla í einn og einn stjórnarandstæðing til starfa í nefndum, að öðru leyti er það bara ekki gert vegna þess að ríkisstjórnir reikna bersýnilega ekki með því að stjórnarandstæðingar hafi vit á nokkru einasta máli og geti yfirleitt nokkurn skapaðan hlut en hún á eftir að komast að fullkeyptu með það ríkisstjórnin að stjórnarandstaðan getur eitt og annað. Eftir því er uppleggið allt í þessu frv. þar sem gert er ráð fyrir því að selja þetta fyrirtæki eins og það liggur fyrir.
    Í grg. er m.a. rakið hvaða ákvæði það eru sem eru felld út úr lögunum, um Lyfjaverslun ríkisins, samkvæmt þessu frv. Það eru mjög þýðingarmikil atriði sem eru felld út úr lögunum og það er rakið á bls. 3 í grg.
    Í fyrsta lagi er fellt út úr lögunum það ákvæði að einungis Lyfjaverslun ríkisins sé heimilt að flytja inn bóluefni og ónæmisefni en sala þessara efna nam um 58 milljónum króna á árinu 1991. Gert er ráð fyrir að öðrum lyfjaheildsölum verði framvegis einnig heimilt að flytja inn þessar vörur. Heilbrigðisyfirvöld geta einnig boðið þessa starfsemi út ef hagkvæmt þykir. --- Stendur hér. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. af því að hann hefur vafalaust svör við því á reiðum höndum hvernig hann hugsar sér að standa að þessu bóluefnisútboði ríkisins. Það er væntanlega þá fjmrn. sem ætlar að fara í þetta bóluefnisútboð þar sem stendur til að bjóða út bóluefni og ónæmisefni sem til þessa hafa verið flutt inn af Lyfjaverslun ríkisins. Ég hefði gaman af því að frétta af því hvernig á að haga þessu bóluefnisútboði sem hæstv. fjmrh. ætlar að beita sér fyrir og hvernig þeir starfsmenn fjmrn. ætla að standa að því máli frá því að þetta frv. verður að lögum ef það verður að lögum. Á t.d. að fara í það núna í sumar? Er fjmrn. búið undir það að hefja hér bóluefnisútboð strax eftir lýðveldishátíðina 17. júní? Að frá og með 1. júlí hefjist í raun og veru hundadagar á Íslandi með því að það fari fram bóluefnisútboð á vegum fjmrn. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson sem vafalaust mun beita sér mjög í þessu máli geri grein fyrir því í einstökum atriðum hvernig hann ætlar að haga þessu bóluefnisútboði fjmrn.
    Ég er algjörlega andvígur þessu fyrirkomulagi. Ég tel að það sé langeðlilegast í þessu máli að Lyfjaverslun ríkisins haldi þessu áfram. Ég vil líka segja við hæstv. fjmrh. að ég teldi að þó að þetta frv. verði að lögum þá ætti ekki að standa að málinu eins og þarna er gert ráð fyrir, heldur væri langeðlilegast að semja til lengri tíma við tiltekinn vandaðan og traustan aðila um þann innflutning, óhjákvæmilegan innflutning á bóluefni og ónæmisefni sem hér er gert ráð fyrir og ég bendi t.d. í því sambandi á Reykjavíkurapótek sem er rekið af Háskóla Íslands.
    Í öðru lagi eru felldar niður í þessu frv. þær skyldur á Lyfjaverslun ríkisins að útvega hvers konar lyf, lyfjagögn, bóluefni, ónæmisefni og sjúkragögn fyrir sjúkrahús, dvalarheimili aldraðra og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir. Sjúkrastofnunum ber hins vegar engin skylda að kaupa inn þessar vörur frá fyrirtækinu, að bóluefnum undanskildum, og hafa þær því haft frjálst val um hvert þær beina viðskiptum. Því er eðlilegt að fella ákvæðið niður. --- Stendur hér í grg.
    Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. mundi vera hér í húsum forsetans.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti hlýtur að upplýsa að hæstv. ráðherra er ekki hér í húsinu.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar en ég lýsi því þá yfir að ég mun við 3. umr. málsins, ef það kemur einhvern tíma aftur þetta mál, óska eftir því að hæstv. heilbrrh. verði kallaður fyrir.
    Með öðrum orðum, í 42. gr. laganna um Lyfjaverslun ríkisins er gert ráð fyrir tilteknum skyldum sem Lyfjaverslunin á að uppfylla varðandi t.d. það að sjá stofnunum eins og sjúkrahúsum og elliheimilum og heilsugæslustöðvum fyrir tilteknum lyfjum. Alls konar lyfjum, lyfjagögnum, ónæmisefnum, sjúkragögnum o.s.frv. Þetta er fellt niður og það á ekkert að koma í staðinn. Þá er það fundið út hér samkvæmt nál. hv. efh.- og viðskn. eins og segir hér, með leyfi forseta, í 3. tölul. á þskj. 681:
    ,,Loks er lagt til að inn í frumvarpið verði tekið ákvæði til bráðabirgða þar sem sú skylda er lögð á ráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist verði háttað eftir að hlutafélagið hefur verið stofnað. Þetta er gert til að Alþingi geti metið sjálfstætt hvort það öryggishlutverk verði ekki í traustum horfum eftir sem áður.`` --- Þetta stendur hér, þetta er rétt lesið hjá mér, hæstv. forseti, ,,í traustum horfum`` sem er athyglisvert.
    Látum það nú vera en ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um tvennt. Í fyrsta lagi: Er það hann sem ætlar að leggja fram þessa skýrslu um birgðahald eða er það hæstv. heilbrrh.? Hver er það? Í öðru lagi: Hvernig er gert ráð fyrir að mat Alþingis fari fram? Hvaða tala er þetta eiginlega? Hvernig á Alþingi að meta

það hvort þetta er í lagi? Verður það gert í hv. heilbrn.? Verður það gert með þingsályktun? Alþingi ályktar að það sé nægilega mikið til af lyfjum í landinu. Alþingi ályktar að lýsa því yfir við ríkisstjórnina að það sé nægilega mikið til af sjúkragögnum og þurfi ekki að kaupa meira inn. Kemur þetta á hverju ári eða hvað? Hvað á þetta eiginlega að þýða? Svona skiptir máli. Menn eiga að vanda sig við svona texta og hafa vafalaust gert það og ég spyr: Hvað þýðir þetta? Hefur hv. heilbrn. fjallað um þetta mál? Það sem stendur í nál., þskj. 681: ,,Loks er lagt til að inn í frumvarpið verði tekið ákvæði til bráðabirgða þar sem sú skylda er lögð á ráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir að hlutafélagið hefur verið stofnað. Þetta er gert til að tryggja að Alþingi geti metið sjálfstætt hvort það öryggishlutverk verði ekki í traustum horfum eftir sem áður.``
    Ég vil spyrja hv. þm. Gunnlaug Stefánsson: Er það heilbrn. sem á að meta þetta? Hefur hún fjallað um þetta mál? Hefur hún fengið það? Ég spyr í fullri alvöru? Hefur hún fengið þetta til meðferðar? --- Þingmaðurinn, með leyfi forseta, þegir, þannig að ég hef engar upplýsingar um það hvort heilbrn. hefur fjallað um þetta mál en það er að mínu mati nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að ganga eftir því.
    Ég tel þess vegna, hæstv. forseti, að það sé óhjákvæmilegt að leggja þessar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. hvernig hann telji að eðlilegt sé að þessu birgðahaldi og því öllu saman verði háttað.
    Ég tel að það sé í raun og veru mjög mikilvægt, eins og hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan, að minni hlutinn í efh.- og viðskn. sýndi mikinn samstarfsvilja með því að skrifa upp á álitið eins og þarna er gert. Ég vil gjarnan að hæstv. fjmrh. sýni minni hlutanum sams konar samstarfsvilja nú þegar þessar viðræður sem ég hef gert að umtalsefni standa yfir. Ég er hins vegar ekki sammála því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. að málin séu þannig vaxin að það sé hægt að tryggja það að þetta fyrirtæki verði jafnvel öruggara og betra sem lyfjaframleiðslufyrirtæki og lyfjaverslun ef það verður gert að hlutafélagi. Ég get satt að segja ekki tekið undir þau sjónarmið þeirra framsóknarmanna sem hér hafa verið tíunduð, bæði í ræðu hv. 1. þm. Austurl. og hv. 6. þm. Norðurl. e. að það sé í raun og veru í lagi og jafnvel á mörkunum að svona fyrirtæki eigi að vera í ríkiseigu. Hv. 1. þm. Austurl. sagðist vona að þó að þetta frv. yrði samþykkt og hann sagðist reyndar treysta því að þetta frv. yrði samþykkt, þá yrði unnið að því að efla fyrirtækið og skapa ný störf við þetta fyrirtæki. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, ég hef enga trú á því að þetta verði gert, verði fyrirtækið selt. Ég hef enga trú á því, ekki nokkra. Ég held að málið liggi ekkert svona. Ég held að málið liggi þannig að það sé í raun og veru ætlunin að losa sig við þetta fyrirtæki, bara rétt si svona og skipta sér ekkert meira af því eða þeim verkefnum sem það hefur verið að sinna.
    Það er auðvitað til umhugsunar, hæstv. forseti, að þegar svona mál, svona mikilvægt málefni, svona mikilvægt heilbrigðismál er hér á dagskrá þá skuli heilbrrh. ekki sjást, skuli heilbrrh. ekki láta frá sér fara eitt einasta aukatekið orð, þá skuli landlæknisembættið ekki vera kallað til, þá skuli málið ekki fara til heilbrn., ég held það hafi ekki einu sinni verið sent þangað frá efh.- og viðskn. Það sýnir þetta kæruleysi, þetta allsherjarkæruleysi og virðingarleysi fyrir velferðarkerfinu, fyrir velferðarþjónustunni, heilbrigðiskerfinu og heilbrigðismálum yfirleitt og þeirri mikilvægu þjónustu sem menn eru þar að inna af hendi. Það er aldrei talað um heilbrigðiskerfið af þessari ríkisstjórn nema sem bagga, nema sem vandamál sem þurfi að létta og skera niður kostnaðinn við þetta kerfi. Það er aldrei talað um það að heilbrigðiskerfið er auðvitað ein undirstaða þess að við lifum yfir höfuð í landinu.
    Ég tel því, hæstv. forseti, að miðað við allar aðstæður þá sé eðlilegt og sjálfsagt að þetta mál verði lagt til hliðar og ég legg það til í fyrsta lagi að það verði lagt til hliðar. Í öðru lagi: Vilji hæstv. fjmrh. ekki fallast á það þá er enginn kostur annar en að leita þeirra leiða sem þingsköpin bjóða upp á við meðferð málsins í nefnd og ef það ekki tekst hér við 3. umr., þar sem verði kannað hvort Alþingi er tilbúið til að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar á nýjan leik til meðferðar, til umræðu og athugunar með hliðsjón af þeim samningsniðurstöðum sem nást, við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og sveitarfélögin og aðra aðila sem eru í þeim viðræðum og verða núna í sumar.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að láta reyna á það en ég skora á hæstv. fjmrh. að sýna sanngirni í samskiptum sínum við opinbera starfsmenn og ýta frv. út af borðinu nú þegar og halda áfram þeim viðræðum sem loksins eru hafnar við opinbera starfsmenn um þessi efni.