Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:12:38 (6345)



[17:12]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það hafa orðið nokkuð langar umræður um þetta mál hér í dag og er vonandi að þær skili einhverju. Og það sem mér finnst áþreifanlegt, að við höfum þó náð hér nokkrum árangri, er að hæstv. fjmrh. viðurkenndi í ræðu sinni að ríkisvaldið hefði ekki staðið sig sem skyldi í viðræðum við ríkisstarfsmenn varðandi þau réttindamál sem hér eru til umræðu. Ég hlýt að treysta því að í framhaldi af því verði settur kraftur í það mál og ítreka það sem ég sagði við hæstv. ráðherra fyrr í dag að þó svo mál séu komin fyrir dómstóla þá er ekkert sem mælir á móti því að menn geti náð samkomulagi og það er iðulega gert í slíkum tilfellum og oftast til hagsbóta fyrir báða aðila að þurfa ekki að láta mál ganga fyrir dóm.
    Hæstv. ráðherra sagði reyndar að það gæti komið upp sú staða að aðilar væru sammála um að vera ósammála. Það var svolítið sérstakt að heyra þessi orð frá hæstv. fjmrh. því í þessari einu setningu er kannski hægt að lýsa stjórnarsamstarfinu síðustu mánuðina hjá núv. hæstv. ríkisstjórn. Þar virðast stjórnarflokkarnir nánast ekki vera sammála um nokkuð annað heldur en vera ósammála í næstum öllum málum.