Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:35:44 (6348)


[17:35]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. saknar þess að hafa ekki formann Alþb. sem oftast í ræðustól og í kringum sig og skil ég það út af fyrir sig vel. Hitt fannst mér athyglisvert við ræðu hv. þm. að hann nefndi hvergi þá lausn sem þeir framsóknarmenn hafa viðhaft í sambandi við sín formannsmál að senda formanninn upp í Seðlabanka og þar með er alveg ljóst að hann mun ekki tala í bráð eftir að hann verður orðinn bankastjóri Seðlabankans. Svo róttækar niðurstöður held ég að menn munu yfirleitt ekki nota í þessu sambandi.
    Hitt er fróðlegt að ævinlega þegar borið er á þá framsóknarmenn að þeir séu í tilhugalífi við íhaldið þá stökkva þeir upp og kenna öðrum um: Þeir eru á leiðinni með íhaldinu en ekki við. Þetta er nokkuð fróðlegt og til umhugsunar en staðreyndin er sú að ævinlega þegar Framsókn er búin að vera frá íhaldinu um nokkurra ára skeið þá munar hana þangað aftur. Þá langar hana heim til íhaldsins á nýjan leik og fer að varpa sér aðeins yfir á hægri hliðina. Og hæstv. fjmrh. var svo taumlaus í ástarfögnuði sínum í garð Framsfl. áðan að það jaðraði við dónaskap þó að hæstv. forseti mótmælti því ekki sérstaklega. Ég skil það vel að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sem er nýliði í þessari stofnun, skuli reyna að bera í

bætifláka fyrir Framsókn í þessu efni en það er misskilningur af honum að gera það af því að Framsókn ætlar þetta, það er alveg bersýnilegt og hæstv. fjmrh. langar, eins og fram hefur komið.