Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:37:47 (6350)


[17:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef svo fer sem ætla má af opinberri umræðu að hv. þm. Steingrímur Hermannsson fari í stól seðlabankastjóra, og tel ég að þá verði sá stóll vel setinn, þá væri það af eðlilegum orsökum að hann tekur ekki til máls í ræðustól á Alþingi eftir að það gerist.
    En hinu er ég alveg jafnmikið undrandi á að við skulum nánast ekki hafa séð formann Alþb. í þingsölum frá því að tilhugalífi hans við Davíð Oddsson og hæstv. ráðherra og aðra forsvarsmenn Sjálfstfl. var slitið með eftirminnilegum hætti í ræðustól í vetur.
    Hitt vil ég benda hv. þm. á að við þekkjum það ósköp vel í Norðurlandi eystra hvert hugur alþýðubandalagsmanna stefnir. Það var ekki búið að telja eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar í langstærsta þéttbýliskjarna landsbyggðarinnar, Akureyri, þegar íhaldið og Alþb. voru hlaupin í sæng saman. ( SvG: Þetta er um Lyfjaverslun ríkisins.) Og það bendir ekkert til annars en að þar hafi menn hug á að endurtaka þann leik. Þar höfum við því dæmin sannarlega fyrir okkur.