Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:47:17 (6357)


[17:47]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrir utan þau almennu rök, sanngirnisrök, sem eru fyrir því að hæstv. ráðherra leggi frv. til hliðar og haldi áfram viðræðum við opinbera starfsmenn, þá eru í brtt. hv. efh.- og viðskn. þau viðbótarrök að þar er gert ráð fyrir því að það verði heimilt að selja allt að helming hlutabréfa ríkissjóðs í félaginu, að öðru leyti skal leita heimildar Alþingis til sölu. Með öðrum orðum er gert ráð fyrir því að hér verði um að ræða sambýli einkaaðila og ríkisins um nokkurt skeið og þá spyr ég: Hver er réttarstaða starfsmannanna á þeim tíma meðan sambýli þessara aðila er í gangi? Eiga starfsmennirnir ekki siðferðilegan rétt á því að fá að vita hvort réttindi þeirra verða helminguð eins og hlutur ríkisins í fyrirtækinu? Verða biðlaunaréttindin helminguð, verða lífeyrisréttindin helminguð? Þessu verður að svara áður en málið fer héðan út og þess vegna er eðlilegast að leggja málið til hliðar og ræða við starfsmennina í samningum.