Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 22:09:27 (6363)


[22:09]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eftir langa og ítarlega ræðu síðasta ræðumanns má segja að eftir standi það sem hún hafði eftir leiðandi manni Þjóðhagsstofnunar. Aðalatriðið er ekki hvort Verðjöfnunarsjóðurinn starfi eða ekki, bara að eitthvað komi í staðinn. Það er kannski meginmálið. Það er ekki nema lítill hluti af þeim sem hafa lagt fjármagn í þennan sjóð sem eru tilbúnir til þess að halda því áfram vegna þess að þetta er ekki

í fyrsta skipti sem til slíks sjóðs hefur verið stofnað og það eru aðilar sem ekki hafa fengið miklu um ráðið hvernig fjármagninu hefur svo verið ráðstafað eins og nú er talað um að gera. Þeir aðilar, sjómennirnir, sem hafa aflað hluta þess fjármagns sem til hliðar hefur verið lagt, hafa allt of lítið haft um það að segja og með tilkomu fiskmarkaðanna hefur þessi aðstaða gerbreyst. Eins og allir vita taka sjómenn hinu frjálsa fiskverði með súru og sætu og kæra sig ekkert um mikla hleðslu á sjóðakerfi í kringum sjávarútveginn. Það er víst nóg samt.
    Hvað sem má því um þetta segja sem hagstjórnartæki þá er það einhverra annarra en sjómanna að borga í sjóði og það er annarra en sjómanna að stjórna því hvernig á þeim málum er haldið. Sjómenn eru tilbúnir til að taka þau markaðslögmál sem gilda með fiskmörkuðunum og þeir standa og falla með því. Þó er einn galli á þessu og hann er sá að það vantar fleiri fiskmarkaði og það vantar meiri og betri markaðstengingu á fiskverði en nú er. Það er kannski meginmálið en ekki að hlaða upp fleiri sjóðum í sjávarútvegi heldur á frekar að fækka þeim.