Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 22:15:05 (6366)


[22:15]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var rétt sem hv. þm. sagði að tíminn var knappur til að svara, en ég get huggað hann með því að hann hefur möguleika á að taka þátt í þessari umræðu og svara. Þá á ég bæði við hans afstöðu til þróunarsjóðsins, sem vissulega hlýtur að blandast inn í þessa umræðu, og einnig, þar sem þeirri spurningu er enn ósvarað þrátt fyrir tvö andsvör, hvað eigi að koma í staðinn. Við vitum það bæði, hv. 16. þm. Reykv. og ég, að þar er ekki um neina lausn að ræða. Það er lausn á hluta vandans. En það er ekki nein lausn sem tekur á þeim gífurlegu hagsveiflum sem verða og það vitum við bæði. Þar af leiðandi skora ég á hv. þm., ég veit að hann hefur bæði áhuga og þekkingu á málinu en er að vísu í afskaplega slæmum félagsskap og ég samhryggist honum út af því, að taka þátt í umræðunni síðar, gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og gera það á þann hátt að hann útlisti það ef hann hefur komið auga á einhverja möguleika til þess að nýta fiskmarkaðina til þessa að bjarga málunum ef Verðjöfnunarsjóðurinn hefur verið lagður niður. Við getum alveg verið sammála um að við viljum ekki vera að beita sjómönnum fyrir okkur til þess að taka á sig eitthvað sem þeir hafa ekki samið um að gera. En ég er ekki farin að sjá þessar lausnir og eftir stendur að þær stóru hagsveiflur sem við erum að tala um verða ekki jafnaðar á fiskmörkuðum. Ég á eftir að fá þann rökstuðning sem dugar mér til að sannfærast um það. Enda held ég að þessum rökum sé lítt haldið á lofti.