Lyfjaverslun ríkisins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 10:53:31 (6373)



[10:53]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í umræðum um þetta mál í gær að það standa nú yfir viðræður milli ríkisins og BSRB, sveitarfélaganna og Reykjavíkurborgar um framtíðarskipan hinna umdeildu mála sem vikið er að í 3. gr. þessa frv., þ.e. um stöðu launafólks hjá ríkisfyrirtækjum sem breytt er í einkafyrirtæki. Ég tel að með því að samþykkja þetta frv. núna og gera það að lögum sé verið að stofna þeim viðræðum öllum í stórfellda hættu. Ég tel því eðlilegast að leggja frv. til hliðar eins og ég nefndi í umræðunni í gær en fjmrh. hefur hafnað. Af þeirri ástæðu að hann hefur hafnað þessu mun ég greiða atkvæði gegn 1. gr. og að sjálfsögðu 3. gr. líka sem fjallar um hið umdeilda mál sem lýtur að samskiptum BSRB og ríkisins varðandi stöðu launamanna. Ég tel að ríkisstjórnin sé hér á háskalegri braut og skora enn á hæstv. fjmrh. að endurskoða afstöðu sína.