Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 11:07:58 (6377)


[11:07]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna skilyrða samkeppnisreglna EES-samningsins og til þess að aðgangur vátryggingarfélaga á brunatryggingarmarkaði hér á landi verði frjáls og jafn öllum á EES-svæðinu og að vátryggingartakar geti sjálfir valið það vátryggingarfélag sem þeir vilja skipta við. Vegna skyldubrunatryggingar þarf að afnema annars vegar einkarétt Húsatrygginga Reykjavíkurborgar á brunatryggingum í Reykjavík og hins vegar að fella niður heimild bæjar- og sveitarstjórna utan Reykjavíkur til að binda húseigendur í sveitarfélaginu við vátryggingarfélag sem þau hafa samið við.
    Í frv. því sem hér liggur frammi er lagt til að lög nr. 25/1954, um brunatryggingar í Reykjavík, og lög nr. 59/1954, um brunatryggingar utan Reykjavíkur, verði felld úr gildi og í staðinn komi ein lög um brunatryggingar, enda er eðlilegt að ein lög gildi í landinu öllu um þessi mál. Gert er ráð fyrir að brunatrygging verði eftir sem áður skylduvátrygging.
    Í ákvæði til bráðabirgða í frv. er kveðið á um sérstaka aðlögun að hinu nýja fyrirkomulagi í og utan Reykjavíkur auk ákvæða um framhald starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur. Í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir að húseigendur utan Reykjavíkur verði bundnir af gerðum samningum og skilmálum til ársloka 1994 en geti eftir það valið það vátryggingarfélag sem þeir kjósa að undangenginni tilkynningu um uppsögn ásamt staðfestingu á því hvar þeir verði brunatryggðir. Að öðrum kosti framlengist vátrygging til eins árs í senn.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er sérstaklega fjallað um framhald starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur. Undanþága sú sem Húsatryggingar Reykjavíkur hafa í EES-samningnum gildir áfram að öðru leyti en því að einkaréttur þeirra til brunatrygginga er afnuminn. Skilyrði þess að undanþágan gildi áfram um rekstrarformið er þó sú að Húsatryggingar breyti í engu fyrirkomulagi eða umfangi starfsemi sinnar.
    Húseigendur í Reykjavík geta með sama hætti sagt upp brunatryggingum sínum frá og með 1. jan. 1995 enda hafi þeir tilkynnt það til Húsatrygginga Reykjavíkur fyrir 30. nóv. nk. ella endurnýjast tryggingin til eins árs í senn.
    Um önnur ákvæði þessa frv. er ekki ástæða til að fjölyrða enda eru þau í samræmi við ákvæði eldri laga um brunatryggingar í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Þó er rétt að geta þess að frv. gerir ráð fyrir að Fasteignamat ríkisins skuli framvegis annast virðingu skylduvátryggðra húseigna í stað dómkvaddra matsmanna áður. Er að mati ýmissa talið heppilegt að sami aðili annist framkvæmd fasteignamats og virðingar til brunatryggingar. Á hinn bóginn hefur á það verið bent og athugasemdir komið fram um það að þennan þátt frv. þurfi að skoða nánar og legg ég til og tel eðlilegt að hv. nefnd fari um það höndum og skoði þann þátt sérstaklega.
    Virðulegi forseti. Eins og áður sagði er þetta frv. eitt svokallaðra EES-frumvarpa. Það er því mjög brýnt að frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Ég leyfi mér því að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. heilbr.- og trn.