Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 11:12:12 (6378)


[11:12]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. er hér er um að ræða eitt af þeim frv. er tengjast samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er hins vegar svo að þetta frv., kannski

ekki eins og það er nákvæmlega í þeirri mynd sem það liggur fyrir hér heldur hafa öll efnisatriði þessa frv. áður komið til kasta Alþingis og vegna ósamkomulags í stjórnarflokkunum þá gafst hvorki tækifæri né tími til þess að ganga frá málinu á síðasta vori. Nú hefur hins vegar að manni sýnist og ekki er annað vitað en að um þetta mál hafi náðst bærileg samstaða á milli stjórnarflokkanna og því birtist nú það frv. til laga um brunatryggingar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur mælt fyrir. Það er að mörgu leyti mjög frábrugðið því sem áður var kynnt hér og á því er sú grundvallarbreyting að nú er ekki lengur skilið á milli annars vegar brunatrygginga í Reykjavík og brunatrygginga húseigna utan Reykjavíkur. Ég kem kannski aðeins inn á þetta efnisatriði nánar síðar við umræðuna en eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir er í 1. gr. frv. gert ráð fyrir því að húseigendum sé skylt að vátryggja allar húseignir gegn eldsvoða. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt. Ótti manna stóð hins vegar til þess þegar fyrra mál var hér til umræðu að þetta atriði yrði hugsanlega ekki tryggt ef losað yrði um einkarétt Húsatrygginga Reykjavíkur á brunatryggingu fasteigna í Reykjavík.
    Varðandi 2. gr. frv., eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, þá er gert ráð fyrir því að Fasteignamat ríkisins skuli annast virðingu skylduvátryggðra húseigna. Markmið virðingar er að finna hið sanna vátryggingarverðmæti þ.e. brunabótamat á þeim tíma er virðing fór fram. Síðan er hins vegar gert ráð fyrir því í greininni að sé annar hvor aðili ósáttur við virðinguna þá geti hann óskað yfirmats.
    Með þessari breytingu sem hér er verið að leggja til og í tengslum við hana langar mig að vitna í grein eftir Jón G. Tómasson borgarritara í Morgunblaðinu í gær þar sem hann lýsir því yfir og er rétt að þessi virðing hefur farið fram á öllum húseignum í Reykjavík. Taki Fasteignamat ríkisins þetta að sér og verði sú breyting gerð þá spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort til standi að slíkt mat fari aftur fram. Verði sú krafa uppi að slíkt mat fari fram eins og frv. gerir núna ráð fyrir þá er hér um skattlagningu á Reykvíkinga að ræða upp á í kringum 18 millj. kr. ef ég man rétt. Og ef ég vitna hér í áðurnefnda blaðagrein í Morgunblaðinu eftir Jón G. Tómasson, þá segir þar, með leyfi forseta: ,,Árlegur skattur á húseigendur í Reykjavík gæti því orðið um 18 millj. kr. og um 40 millj. kr. á húseigendur á landinu öllu.``
    Nú hygg ég að það sé svo að virðingar á fasteignum hafi farið fram, ekki bara hér í Reykjavík heldur einnig annars staðar á landinu og ég ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé meiningin að láta fara fram endurmat á þeim eignum sem búið er að meta og láta þá greiða fyrir þetta.
    Í öðru lagi er í 2. gr. gert ráð fyrir grundvallarbreytingu á matinu þannig að nú skuli Fasteignamat ríkisins annast alla þessa matsgerð og eins og segir í 2. gr. þá er það gert til þess að tryggja að það sé sambærilegt mat alls staðar á landinu og það sé framkvæmt af sömu aðilum. Þetta hefur verið með þeim hætti að það hafa verið dómkvaddir menn sem um þetta hafa séð og síðan hefur verið hægt að vísa því til yfirmats. Það hefur hins vegar verið gert í mjög fáum tilfellum eftir því sem upplýst hefur verið.
    Mér hefði fundist eðlilegra að snúa þessu við og hafa þetta með svipuðum hætti og það er í dag að það séu dómkvaddir menn sem annist matið en að Fasteignamat ríkisins geti hins vegar skorið úr og annast yfirmat komi til þess að ágreiningur sé um það mat er dómkvöddu mennirnir hafa lagt á eignirnar. Þessari athugasemd vildi ég koma hér á framfæri við 1. umr.
    Í 2. mgr. 3. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld. Vátryggjanda er þá heimilt að víkja frá brunabótamatsfjárhæðinni eftir ákvæðum sem nánar er kveðið á um í reglugerð.``
    Nú er það svo að í 5. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. fái mjög víðtækt vald til setningar reglugerðar. Mér finnst það orka tvímælis hvort það sé rétt að veita svo víðtækt vald í reglugerð eins og þarna er gert ráð fyrir, þ.e. að það geti verið háð reglugerðarákvæði hæstv. ráðherra um hversu mikið skuli greitt og þá vil ég vísa til þess að í 16. gr. núgildandi laga um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Bætur fyrir tjón á húsum má aðeins greiða til þess að gera við hús sem skemmst hefur við bruna eða endurbyggja á sama stað hús er brunnið hefur, eða þar sem félagið í samráði við byggingarnefndir í kaupstöðum, kauptúnum og hreppsnefndir í sveitum ákveður og er félaginu skylt að tryggja áður en brunabæturnar eru greiddar að þeim sé réttilega varið.
    Félaginu er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu samkvæmt ákvæðum fyrri málsgreinar greinar þessarar, þó svo að 15% af brunabótaupphæðinni sé þá dregið frá, nema almannahagur heimti að vikið sé frá þessu ákvæði um frádrátt eða ástæður sem tjónþola er ekki sjálfrátt um.``
    Í þessum lögum um Brunabótafélagið er þetta ákvæði alveg skýrt hvernig með skuli farið og því finnst mér það, eins og ég sagði áðan, orka tvímælis hvort svona víðtækt vald eigi að veita í reglugerð, hvort ekki sé eðlilegra að setja þetta inn í lagafrv.
    Hitt er svo aftur annað mál að það orkar líka tvímælis hvort rétt sé að binda þetta með þessum hætti, og það veit ég að fram hafa komið athugasemdir um, hvort rétt sé að binda þetta við 15% ef ekki er um endurbyggingu að ræða. Það gæti verið svo --- og ekki er ég að segja að það sé hið ákjósanlegasta --- að á mörgum stöðum gæti sú staða komið upp að fyrirtæki brenni og það sé alls ekki æskilegt eða eðlilegt að það sé endurbyggt með tilliti til þess að það væri jafnvel betur komið að það væri ekki lengur til og þá vil ég vísa til frv. sem hér er í þinginu um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Og þá komum við að fiskvinnslufyrirtækjum þar sem menn eru að leita leiða til þess að fækka þeim. Ekki held ég að rétta leiðin sé að brenna þau en í mörgum tilfellum vaknar sú spurning hvort það sé eðlilegt að endurbyggja og ef ekki er um endurbyggingu að ræða þá vaknar sú spurning á hvaða verði eigi að greiða viðkomandi fasteign út.
    Matsverð fasteigna er mjög mismunandi eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu. Brunabótamatið er hins vegar nokkuð sambærilegt en gefur hins vegar að mörgu leyti alls ekki raunhæfa mynd af því hvert verðmæti eignanna er. Ef það yrði horfið frá brunabótamatsfjárhæðinni og þarna yrði sett inn markaðsverð þá væru menn hugsanlega að verðfella margar eignir úti um land. Að þessu þarf að gæta, ekki síst í ljósi þess að margar lánastofnanir hafa í raun og veru lánað út á þessar eignir á brunabótamatsverði af því að þær hafa staðið í þeirri trú að brunabótamatið væri í einhverju samræmi við markaðsverðið. Jafnvel er það svo að ef markaðsverðið yrði notað og horfið yrði frá brunabótamatsfjárhæðinni þá mundu þau veðbönd sem á þessum eignum hvíla hugsanlega ekki standa undir markaðsverðinu á eigninni ef hún væri seld og yrði greidd út á því mati er talið væri markaðsverð. Það þarf því að skoða vel þær hugmyndir fram hafa komið og uppi eru um að breyta, en þetta mál hefur örlítið verið rætt í hv. heilbr.- og trn. áður en það kom til 1. umr., og þarf auðvitað að athuga slíka hluti.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, mjög víðtæku valdi hæstv. heilbr.- og trmrh. til þess að gefa út reglugerðir. Að því finnst mér að við þurfum örlítið að gá og skoða nánar þegar málið kemur til frekari umfjöllunar hv. heilbr.- og trn.
    Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því að felld verði úr gildi lög um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, og lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954. Og því er þetta frv. fram komið þar sem þetta er sameinað í einu og sama lagafrumvarpinu.
    Á fund hv. heilbr.- og trn. hefur komið borgarritari í Reykjavík, Jón G. Tómasson, og gert nefndinni grein fyrir afstöðu Reykjavíkur til þessa máls. Einnig hefur borgarstjóri ritað nefndinni bréf þar sem gerðar hafa verið athugasemdir við frv. eins og það liggur nú fyrir. Þær athugasemdir snúa fyrst og fremst að 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða.
    Í fyrsta lagi er lagt til af hálfu borgarstjórnar Reykjavíkur eða borgarráðs að heiti þessa frv. verði breytt þannig að það heiti frumvarp til laga um brunatryggingar utan Reykjavíkur og síðan verði vísanin í 6. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að lög nr. 25/1954 verði felld úr gildi, verði fellt út og það ákvæði efnislega samhljóða því sem er í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða verði sett inn í lög nr. 25/1954, um brunatryggingar húsa í Reykjavík.
    Auðvitað er hér um gríðarlega mikla efnisbreytingu að ræða á frv. og ég spyr því hæstv. heilbr.- og trmrh.: Finnst hæstv. ráðherra það koma til greina að þessi breyting verði framkvæmd með þessum hætti?
    Eins og þetta stendur nú í frv., 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða og síðasti málsliður þess ákvæðis hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Tekjur sem Reykjavíkurborg kann að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skal leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi.``
    Það hafa komið fram athugasemdir af hálfu þeirra aðila sem mætt hafa til fundar við hv. heilbr.- og trn. að það sé hæpið að þetta ákvæði, eins og það stendur þarna, standist samkeppnisreglur EES.
    Í 59. gr. EES-samningsins, þar sem fjallað er um samkeppnisreglur og aðrar reglur, er skýrt kveðið á um að opinber fyrirtæki eða fyrirtæki með einkaleyfi eða sérleyfi skuli aðlaga sig þessum samkeppnisreglum EES. Það er því hæpið að hægt sé að halda því fram að þetta ákvæði, eins og það stendur þarna nú, standist samkeppnisreglur EES. Þar fyrir utan er í 14. gr. nýrra samkeppnislaga gert ráð fyrir því að samkeppnisráði sé heimilt að gera athugasemdir við opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar. Eins og þetta er sett upp hér í frumvarpstextanum þá finnst mér að það orki mjög tvímælis hvort þetta standist, bæði samkeppnisreglur EES og eins 14. gr. samkeppnislaganna, nr. 8/1993. Því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því áður en þetta frv. er hér lagt fram, hvort þessi hluti málsins hafi verið kannaður af ráðuneyti hæstv. ráðherra.
    Að öðru leyti er margt ágætt í þessu máli. Mér finnst þær tillögur sem fram hafa komið frá borgarráði Reykjavíkur allrar athygli verðar og rétt að þær verði kannaðar alveg sérstaklega, ekki síst með vísan til þess sem fram kemur í áðurnefndri blaðagrein í Morgunblaðinu í gær eftir borgarritara, Jón G. Tómasson, þar sem því er haldið fram að verði Húsatryggingar Reykjavíkur lagðar niður og tryggingarstofninn sem þar er inni fluttur allur yfir til vátryggingarfélaganna þá geti það hugsanlega leitt til 47% hækkunar á iðgjöldum Reykvíkinga á brunatryggingum. Það væri auðvitað gríðarlega alvarlegt ef svo færi. Hins vegar liggja ekki að baki neinar rannsóknir í þessu eftir því sem ég veit best. En menn verða að hafa það í huga þegar slík breyting er gerð að við höfum samþykkt þessar samkeppnisreglur EES og við höfum samþykkt ný samkeppnislög og um leið og við erum að lögfesta slíka hluti þá verður það að vera alveg tryggt að við séum ekki að brjóta lög eða reglur á öðrum sviðum.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja frekar um þetta mál þar sem ég hef tækifæri til að fjalla um það í hv. heilbr.- og trn.