Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 12:26:29 (6386)


[12:26]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Raunar kom ég inn á það áðan, ég svaraði því ekki beint en nefndi það í framhjáhlaupi, að það er mat manna að EES-samningurinn og sú undanþága á rekstrarformi Húsatrygginga Reykjavíkur standi svo fremi sem umfang og eðli starfseminnar breytist ekki. Þar með lít ég þannig til að arður af þessari starfsemi sem runnið hefur til Slökkviliðsins í Reykjavík megi gera það áfram.
    Hvað varðar samkeppnisaðstöðuna að öðru leyti og samkeppnislög í því sambandi, þá er það auðvitað þekkt að tryggingafélög hafa í gegnum tíðina styrkt með einum eða öðrum hætti fyrirbyggjandi aðgerðir hér og þar í sveitarfélögum allt í kringum landið. Ég lít þannig til og það er mitt mat að þetta sé sams konar stuðningur því að stærstur hluti þessa hygg ég að hafi farið í fyrirbyggjandi eldvarnaeftirlit hér í Reykjavík og nýjan tækjabúnað þannig að það geti látið sig gera. Þetta vildi ég segja um þetta.