Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 12:31:51 (6391)


[12:31]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég sagði það hér áðan að ég vil gjarnan koma til móts við þessi sjónarmið varðandi Fasteignamat ríkisins sem reifað hefur verið í erindi borgarinnar. Hvað varðar sérstöðu Húsatrygginga, þá skulum við aðeins gæta að því í hverju hún liggur. Hún liggur í því að borgin á Húsatryggingar. Önnur er sérstaðan ekki því að um landið allt eftir sem áður munu sveitarstjórnir gera samninga við sérstök tryggingafélög og bjóða sínum íbúum, hv. þm., upp á það að ganga inn í þá samninga. Íbúarnir munu þurfa að hafa fyrir því að segja sig frá þeim samningum sem sveitarstjórnir munu gera út um allt land þannig að það er algjörlega sami hluturinn sem gengur hér í Reykjavík og annars staðar á landinu um þessi efni. Það er algjörlega sami hluturinn og engin efni til þess að skipa málum í sjálfstætt lagafrumvarp af þeim sökum einum að rekstrarformið skuli vera sérstætt hér í Reykjavík.