Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 12:33:59 (6394)


[12:33]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég skal hafa þetta mjög stutt. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs í stað þess að fara í andsvör af því að hér höfðu margir beðið um að fá að taka þátt í andsvörum þannig að ég vildi ekki stytta þau enn frekar en raunin varð.
    Ég tek undir með hv. 9. þm. Reykv. að í rauninni er alveg ástæðulaust að vera að byrsta sig mikið út af þessu máli eða fara hér í einhvern garra út af þessu litla frv. sem hér er til umfjöllunar vegna þess að eins og ég hef skilið umræðuna hér og eins og komið hefur fram í máli manna, þá eru menn sammála um það að Húsatryggingar Reykjavíkurborgar eigi að fá að starfa áfram. Þannig skil ég það. Og ég skil það þannig að Sjálfstfl. sé líka þeirrar skoðunar að þetta félagslega fyrirtæki, sem hér hefur verið bent á að starfar á tryggingasviðinu þrátt fyrir að þar sé um samkeppni að ræða frá tryggingafélögum, eigi að fá að starfa áfram, það eigi að fá að vera félagslegt fyrirtæki í eigu borgarstjórnar Reykjavíkur. Um þetta erum við sem sagt sammála hérna. Þá er bara spurningin um að finna þessu eitthvert form. Við getum auðvitað haft mismunandi skoðanir á því í hvaða form þetta eigi að fara. Ég hef bent á að mér finnist óeðlilegt að það sé kveðið á um þetta í ákvæði til bráðabirgða vegna þess að slík ákvæði eiga eðli málsins samkvæmt að vera til bráðabirgða. Og það er eðlilegt eins og seinni liðurinn í því ákvæði til bráðabirgða er. Það er bara kveðið á um það á hvaða tímabili fólk utan Reykjavíkur skuli tryggja eða vera með sína samninga bundna eins og þeir eru núna og síðan rennur það í rauninni sjálfkrafa út. Fyrra ákvæðið til bráðabirgða um undanþágu Reykjavíkurborgar er í rauninni ótímasett. Reykjavíkurborg fær þarna ótímasetta undanþágu og þá eiga Húsatryggingar Reykjavíkur að starfa alltaf samkvæmt ákvæði til bráðabirgða og mér finnst það ekki eðlilegt í lagasetningu.
    Menn geta svo verið viðkvæmir fyrir því hvort það eigi að gilda einhver sérlög í Reykjavík og

Reykjavík eigi að fá einhverja sérmeðhöndlun. Ég er nú ekki að tala um það að við höfum einhver sérstök lög um brunatryggingar í Reykjavík. Ég hefði getað séð það fyrir mér að við hefðum einhver lög um Húsatryggingar Reykjavíkurborgar. Það er á dagskrá í dag á þinginu lög um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands þannig að við ætlum að vera með sérlög um Brunabótafélag Íslands. Ég sé alveg eins fyrir mér að við getum verið með lög, einföld lítil lög um Húsatryggingar Reykjavíkur þannig að þær viti þá á hvaða grunni þær fá að starfa áfram. Síðan erum við auðvitað með almenn lög um brunatryggingar eins og hér er verið að setja og svo erum við með almenn vátryggingarlög o.s.frv. Þetta eru í rauninni þá bara lög um Húsatryggingar Reykjavíkurborgar en ekki brunatryggingar almennt í Reykjavík. Ég mundi a.m.k. vilja skoða hvort það væri hægt að hafa einhvern slíkan hátt á þannig að þetta fyrirtæki sem starfar þá samkvæmt undanþágu í EES-samningnum þurfi ekki að byggja alltaf á ákvæði til bráðabirgða. En ég legg þetta sem sagt bara inn í umræðuna.