Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 14:13:52 (6398)


[14:13]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Brunabótafélag Íslands á sér mjög merka sögu, 77 ára gamla sögu, og hefur skipt húseigendur á Íslandi miklu máli. Það var 1891 sem fyrsta frv. á Alþingi var flutt um vátryggingar á Íslandi en ekki svo fyrr en 1917 að lög um Brunabótafélag Íslands voru samþykkt. Það hamlaði mjög öllum framförum úti á landi að ekki voru neinar vátryggingar í landinu fyrr en þetta. En Reykvíkingar bjuggu þá við betri hlut heldur en landsbyggðin því 1874 sömdu Reykvíkingar við Dani um vátryggingar. Þannig breytti það mjög miklu fyrir landsbyggðina þegar Brunabótafélag Íslands var stofnað og mér finnst rétt að geta þess hér nú að leiðarlokum því auðvitað er Brunabótafélag Íslands allt um þessar mundir. Það má segja að um leið og Brunabótafélag Íslands er kvatt á vissan hátt þá liggur erfðaskráin líka fyrir. Um hana hafa menn deilt mjög lengi. Það var lengi álitið að sveitarfélögin ættu Brunabótafélag Íslands en síðan hefur komið í ljós að það eru tryggjendur, eigendur fasteigna sem hafa tryggt hjá Brunabótafélagi Íslands sem eiga Brunabótafélag Íslands. En þeir hafa nú hverjir fyrir sig óskaplega lítið að segja um það fé sem hér um ræðir því það eru sveitarfélögin sem fara með þá eign. Auðvitað má deila um það og það má hugsa sem svo hvort það hefði verið eðlilegt að eignarhlutanum hefði bara verið skipt jafnt upp, nákvæmlega, að hver húseigandi --- ég veit að það er mjög flókið því það eru 106 þús. eigendur að Brunabótafélagi Íslands. En það má samt sem áður hugsa sem svo að það eru hinir raunverulegu eigendur sem hafa tryggt hjá Brunabótafélagi Íslands.
    Ég ætla að láta það koma hér fram að það gleður mig sú samstaða sem er um hvernig þessum málum verður lokið. Ég held að það sé nokkuð ljóst að það verða ekki margar brtt. í hv. heilbr.- og trn., mér sýnist að menn séu komnir með sátt í þessu máli og það er gott því um þetta hefur verið deilt mjög lengi, um eignarhald á Brunabótafélagi Íslands. En að öðru leyti hef ég tækifæri til að fara nánar ofan í saumana á þessu frv. í hv. heilbr.- og trn.