Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 16:05:16 (6405)


[16:05]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram eru um margt athyglisverðar. Því hefur verið haldið fram af sumum hv. þm. stjórnarandstöðunnar að þetta frv. sé einvörðungu flutt hér til þess að ná í ríkissjóð þeim fjármunum sem brunnið hafa inni í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Það er á miklum misskilningi byggt. Það var ákveðið að endurskoða gildandi lög um Verðjöfnunarsjóðinn. Niðurstaðan liggur fyrir í þeirri skýrslu sem fylgir frv. þar sem lagt var til að sjóðurinn yrði lagður niður.
    Vitaskuld er það rétt að það hafa verið uppi mismunandi sjónarmið um þýðingu verðjöfnunar og með hvaða hætti mætti koma henni við. Það hefur svo komið hér fram í máli eintakra þingmanna stjórnarandstöðunnar að lítið sé gefandi fyrir álit hagsmunasamtaka sjávarútvegsins í þessum efnum og rétt sé að taka einvörðungu mið af þeim álitum sem komið hafa frá Seðlabanka Íslands og fleiri aðilum og ganga í aðra átt.
    Það hefur verið gert lítið úr því að í rökstuðningi nefndarinnar hefur verið á það bent að erfitt sé að starfrækja sveiflujöfnunarsjóð af þessu tagi í andstöðu við þá aðila sem við þessi lög eiga að búa. Mér finnst það býsna kynlegt, ekki síst af hálfu þeirra sem gerst þekkja til að bera þessi rök á borð. Vandinn sem við er að etja í þessu efni er ekki síst fólginn í því að það koma upp erfiðar aðstæður vegna þess að Verðjöfnunarsjóðurinn er ekki almennur sveiflujöfnunarsjóður og því geta komið upp þær aðstæður að sjávarútvegsfyrirtækin séu að tapa peningum án þess að verðbreytingar gefi tilefni til þess að draga úr inngreiðslum í sjóðinn, til að mynda vegna þess að afli dregst saman eða kostnaður eykst hér innan lands. Það er mjög skiljanlegt að við slíkar aðstæður sé það óásættanlegt fyrir fyrirtækin að búa við framkvæmd verðjöfnunar með þeim hætti sem núgildandi lög mæla fyrir um. Þær aðstæður voru uppi þegar gripið var til þess að stöðva inngreiðslur með sérstökum lögum og síðan að endurgreiða innstæðurnar áður en verðtilefni samkvæmt lögunum gáfu tilefni til. Og mér finnst ekki að það sé hægt að gera lítið úr þessum rökum þeirra sem í forustu eru fyrir atvinnugreininni.
    Það er ugglaust svo að verðjöfnun getur haft góð almenn efnahagsleg áhrif. Ég er ekki að mæla

á móti því að á árunum 1990 og 1991 hafi Verðjöfnunarsjóðurinn haft áhrif í þá veru og komið í veg fyrir launahækkanir sem ella hefðu orðið og hugsanlega leitt til hefðbundinnar víxlverkunar kaupgjalds og verðlags í landinu. Sérstaklega er athygli vert að þingmenn Alþb., sem jafnan hafa verið talsmenn kauphækkana burt séð frá því hvort efnahagslegar forsendur væru fyrir þeim eða ekki, skuli einmitt í þessari umræðu leggja svo ríka áherslu á að sjóður af þessu tagi skuli vera fyrir hendi til þess m.a. að koma í veg fyrir óraunhæfar kauphækkanir.
    Menn hafa rætt ýmsa möguleika til sveiflujöfnunar, aðrar útfærslur en þá sem verið hefur í gildi. Til að mynda þá að fyrirtækin hefðu meira frjálsræði í þessu efni. Til að mynda þá að hún væri meira í formi skyldusparnaðar og breytti ekki því að innstæðurnar væru eign viðkomandi fyrirtækja. Á móti hefur á það verið bent að hætta væri á að slík aðferð hefði ekki þau sveiflujöfnunaráhrif sem menn sækjast eftir.
    Auðvitað er ekkert algilt í þessu efni og enginn einfaldur einn sannleikur uppi í þessu efni. Það er ekki útlit fyrir það að á næstunni komi til, því miður, að inngreiðslur mundu hefjast í sjóðinn ef lögin giltu óbreytt áfram. En ég hef hlýtt á þær umræður sem hér hafa farið fram með athygli. Þó að ég sé ósáttur við margt af því sem hér hefur verið sagt og geti ekki fallist á ýmislegt í þeim rökstuðningi sem hér hefur komið fram, þá finnst mér að það komi vel til álita að taka tillit til þeirra viðhorfa. Til þess að koma til móts við þau sjónarmið get ég vel hugsað mér að málið verði tekið til skoðunar milli 2. og 3. umr. á þann veg að inngreiðslur í sjóðinn yrðu stöðvaðar og hugsanlega á þann hátt að ráðherra yrði heimilt að hefja þær á nýjan leik þegar tilteknum skilyrðum væri fullnægt, til að mynda að þorskafli væri kominn upp í 250 þús. lestir eða verð á afurðum hefði hækkað að meðaltali um eitthvert tiltekið hlutfall og að ráðstöfun þeirra fjármuna sem inni í sjóðnum eru yrði óbreytt frá því sem frv. er núna. Ég fyrir mitt leyti væri til málamiðlunar alveg tilbúinn til þess að skoða slíkt á milli umræðna í ljósi þess að hér hafa verið fluttar ræður um þetta efni sem ég tel ástæðu til að hlusta á og freista þess að koma til móts við sjónarmið þó ég sé ekki að öllu sáttur við það með hvaða rökum þau hafa verið flutt. En ég er tilbúinn til þess að beita mér fyrir slíkri skoðun á þessum forsendum á milli umræðna.