Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:03:46 (6411)

[15:03]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á fimmtudag vakti ég athygli á því hér úr ræðustól að í fréttum hefði verið skýrt frá því að Ríkisendurskoðun hefði lokið við skýrslu um sölu á hlutabréfum ríkisins í SR-mjöli en það var jafnframt skoðun ríkisendurskoðanda að sú skýrsla yrði ekki birt meðan fram færi málflutningur í máli sem einstaklingur hefur höfðað vegna þeirrar sölu. Ég óskaði eftir því úr ræðustól að forsætisnefnd tæki þetta mál til skoðunar.
    Nú var greint frá því áðan á þingflokksfundi í Alþb. að til forsætisnefndar hefur borist bréf frá Ríkisendurskoðun þar sem fram kemur m.a. að í þeirri skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur nú lokið um söluna á SR-mjöli komi fram gagnrýni Ríkisendurskoðunar á það sem hún telur að betur hefði mátt fara við söluna. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar það liggur fyrir staðfest á Alþingi að Ríkisendurskoðun hefur lokið skýrslu um þessa sölu þar sem gagnrýni kemur fram á söluna en ætlar síðan að halda skýrslunni leyndri þótt einstaklingur hafi höfðað mál út af sölunni í héraðsdómi Reykjavíkur. Ég vil í því sambandi minna forseta á það fordæmi að þegar þingið tók afstöðu til þess á síðasta kjörtímabili hvort ætti að birta upplýsingar, sem vörðuðu mál einstaklings sem var í málarekstri fyrir dómi, þá tók þingið þá afstöðu að þær upplýsingar ætti að birta. Þingið taldi ekki ástæðu á síðasta kjörtímabili til að bíða með að birta upplýsingar þótt mál væru í gangi. Ég vil þess vegna láta koma skýrt fram sem skoðun þingflokks Alþb. að þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar eigi tafarlaust að birta. Og ég vil beina þeim tilmælum til forseta þingsins að skýrslan verði birt. Þetta er skýrsla sem fjárln. óskaði eftir, þetta er skýrsla sem Ríkisendurskoðun hefur lokið og það er í samræmi við það fordæmi sem skapað var á síðasta kjörtímabili að skýrslan verði birt.