Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:08:09 (6413)


[15:08]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er auðvitað ófært að fela þessa skýrslu. Það liggur ljóst fyrir að úr því að Ríkisendurskoðun fór yfir þetta mál að frumkvæði fjárln. þá hlaut hún auðvitað að finna þar gagnrýnisverða hluti. Málið er þannig vaxið að ábyrg stofnun eins og Ríkisendurskoðun gat ekki litið á þetta mál öðruvísi en sjá á því verulega vankanta. Það er engum greiði gerður með því að leyna þessari skýrslu eða fela hana. Það vekur meira að segja enn þá meiri tortryggni en ella mundi verða. Skýrslan gæti orðið til þess að eyða einhverju af þeirri tortryggni sem að sjálfsögðu er fyrir hendi. Ég tel að það sé alveg skýlaust að það beri að birta skýrsluna, kynna hana fyrst fjárln. og síðan Alþingi öllu. Ég vil fara fram á að hér verði umræða utan dagskrár um söluna á SR-mjöli áður en þinglok verða í vor og kem því hér með til hæstv. forseta.