Málefni sumarhúsaeigenda

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:34:02 (6425)

[15:34]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Málefni sumarhúsaseigenda hafa talsvert verið í umræðum upp á síðkastið og er meginástæðan sú að sumarhúsaeigendur fá mjög mismunandi þjónustu frá þeim sveitarfélögum þar sem sumarhúsin eru staðsett. Það eru ekki til neinar skilgreiningar á því hvaða þjónustu sveitarfélög skulu veita sumarhúsaeigendum og hvaða þjónusta sé í raun og veru innifalin í þeim fasteignagjöldum sem sumarhúsaeigendur greiða til sveitarfélaga en oft á tíðum eru þessi fasteignagjöld verulega stór hluti af tekjum margra sveitarfélaga þar sem sumarhús eru mjög mörg.
    Þessa umræðu fyrir hönd sumarhúsaeigenda hefur Samband félaga sumarhúsaeigenda á Íslandi leitt og í framhaldi af því skipaði hæstv. félmrh. nefnd 1. apríl 1993 sem átti að hafa það hlutverk að fjalla um málefni sumarhúsaeigenda með tilliti til þessara hluta. Því spyr ég hæstv. félmrh. hér í fyrirspurn á þskj. 938:
  ,,1. Hefur starfshópur sá, er félmrh. skipaði í apríl 1993, um málefni sumarhúsaeigenda skilað áliti?
    2. Hyggst ráðherra gera kröfur til sveitarfélaganna um að sumarhúsaeigendur eigi rétt á tiltekinni lágmarksþjónustu fyrir greiðslu fasteignagjalda og ef svo er, hver er þá sú lágmarksþjónusta að mati ráðherra sem sumarhúsaeigendur eiga rétt á?``