Málefni sumarhúsaeigenda

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:38:29 (6427)


[15:38]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þetta svar. Um dagsetninguna á skipunarbréfinu ætla ég ekki að deila við hæstv. félmrh. Það voru hins vegar þær uppýsingar sem ég hafði að starfshópurinn hefði verið skipaður 1. apríl 1993. Það er reyndar óheppilegur tími til þess að skipa starfshópa þar sem er spurning um hvort á að taka mark á skipuninni eða ekki. En um dagsetninguna ætla ég ekki að deila, hæstv. ráðherra.
    Það sem mér fannst vera athyglisvert í þessu ágæta svari hæstv. ráðherra var það að ráðherrann taldi að sumarhúsaeigendum væri veitt of lítil þjónusta og það er auðvitað það mikilvægasta sem fram hefur komið í þessu efni. Ég skil hæstv. ráðherra vel að hann skuli ætla að bíða með að gefa út hverjar þær skilgreiningar eiga að vera á þeirri þjónustu er sumarhúsaeigendur mega vænta af sveitarfélögunum en af þessu svari má þó hiklaust draga þá ályktun að það þarf að mati hæstv. ráðherra að bæta þjónustuna og hún þarf að vera meiri og því fagna ég sérstaklega.