Ættleiðingar

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:40:46 (6429)

[15:40]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það hlýtur að mega teljast einn af grundvallarþáttum í lífinu að eignast barn og ala það upp. Hjá stærstum hópi fólks gengur þetta nokkuð snurðulaust fyrir sig og almenningur lítur á þetta sem sjálfsagðan hlut. Það er þó staðreynd að stór hópur fólks eignast aldrei börn á hinn náttúrulega máta og er barnleysi verulegt og vaxandi vandamál í hinum vestræna heimi.
    Áður fyrr gat fólk ættleitt börn af sama þjóðerni en smám saman hefur sá möguleiki orðið að engu, eða svo gott sem. Sem dæmi má nefna að árið 1947 voru 3.600 börn sem áttu sænskt foreldri ættleidd í Svíþjóð. Rösklega 40 árum síðar var talan komin niður í 30. Hið sama hefur gerst hér á landi. Mér dettur ekki hug annað en að líta á þetta sem jákvæða þróun. Auðvitað er það ánægjulegt að flestallir foreldrar, í flestum tilfellum einstæðar mæður, hafa aðstöðu til að ala börn sín upp frekar en að gefa þau frá sér. Enda segir í barnasáttmála Sameinuðu þjóðarinnar skýrt og skorinort að börn eigi að vera hjá foreldrum sínum. Sé það ekki hægt sé næstbesti kosturinn að búa hjá kjörforeldrum í heimalandi eða utan þess. Barnaheimili sé neyðarúrræði.
    Ef við lítum á málið hinum megin frá þá má segja að verið sé að bjarga börnunum með ættleiðingu, t.d. frá Asíulöndum til Vesturlanda frá því að gerast betlarar, vændiskonur eða þrælar í verksmiðjum. Þúsundir barna þeirra landa sem hér um ræðir eiga hvorki móður né föður. Heimili þeirra frá upphafi er strætið. Stutt æviskeið verður barátta frá upphafi til enda.
    Ættleidd börn á Íslandi frá 1970 til apríl 1994 eru samtals 293 eftir því sem félagið Íslensk ættleiðing hefur vitneskju um. Flest koma frá Sri Lanka, eða 85, 61 frá Indónesíu og 53 frá Indlandi en færri

frá öðrum löndum. Kostnaður er mismikill og mjög breytilegur eftir löndum, þó er kostnaði hér á landi haldið mjög í lágmarki og er sennilega helmingi lægri hér en í Skandinavíulöndum að ferðakostnaði frátöldum sem er alltaf meiri hér.
    Ég hef upplýsingar um það að í nágrannalöndum okkar eru fjárstyrkir veittir til kjörforeldra sem ættleiða börn frá öðrum löndum. Í Svíþjóð er upphæðin 24.000 sænskar kr., í Danmörku 31.000 danskar kr. og í Noregi 31.000 norskar kr.
    Eini beini fjárstuðningurinn sem hægt er að tala um að hafi verið veittur hér á landi af hálfu ríkisins eru 2 millj. kr. sem félagið Íslensk ættleiðing fékk á síðasta ári á fjárlögum. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um ættleiðingar á þskj. 939 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á ættleiðingarlögum til samræmis því að flest börn, sem ættleidd eru, eru ættleidd erlendis frá?
    2. Mun ráðherra beita sér fyrir styrkveitingum til þeirra foreldra sem ættleiða börn erlendis frá vegna þess kostnaðar sem af því leiðir líkt og tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar?``