Ættleiðingar

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:44:22 (6430)


[15:44]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við fyrri lið fyrirspurnarinnar skal þetta tekið fram:
    Sifjalaganefnd vinnur nú að endurskoðun ættleiðingarlaga, nr. 15/1978, og hefur nefndin í störfum sínum m.a. tekið tillit til ákvæða Haag-sáttmála um vernd barna og samvinnu ríkja varðandi ættleiðingar barna milli landa og er að því stefnt að í íslensk ættleiðingarlög komi sérstök ákvæði um ættleiðingar barna erlendis frá í samræmi við efni samningsins. Samningur þessi var undirritaður í Haag í maímánuði á síðasta ári en hann hefur ekki enn öðlast gildi að alþjóðarétti.
    Ég hef áhuga á að Ísland gerist aðili að samningi þessum en það getur þó ekki orðið fyrr en hann hefur öðlast gildi að alþjóðarétti og nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á íslenskri ættleiðingarlöggjöf þannig að hún samrýmist honum.
    Að því er varðar síðari lið fyrirspurnarinnar er því til að svara að engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkar styrkveitingar. Ég hef hins vegar farið þess á leit að aflað verði upplýsinga frá öðrum norrænum ríkjum um hvernig slíkum styrkveitingum er hagað þar og mun taka mál þetta til athugunar þegar þær upplýsingar liggja fyrir.