Lyfjaauglýsingar í fjölmiðlum

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:51:13 (6433)


[15:51]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint fimm spurningum frá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur.
    Í fyrsta lagi: ,,Hverju á að ná fram með þeim auglýsingum sem nú birtast í blöðum og ljósvakamiðlum frá heilbrigðisráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins?``
    Svar: Lækkun lyfjakostnaðar án þess að slaka á öryggi eða gæðum.
    Í öðru lagi: ,,Er ætlast til að sjúklingar hafi áhrif á lækna varðandi hvaða lyfjum er ávísað?``
    Svar: Átakinu er ætlað að upplýsa almenning um þá möguleika sem reglugerð ráðuneytisins um R-, sérlyf, og S-, samheitalyf, merkingu lyfseðla gefur. Megintilgangur kynningarátaksins er að sjálfsögðu að leitast við að lækka lyfjakostnað samfélagsins og hlut sjúklinga. En eins og áður sagði að slaka í engu á öryggi og gæðum.
    Það gefur auga leið að hér er hlutur lækna þyngstur á metum.
    Átakinu er jafnframt ætlað að upplýsa almenning um þann mikla árangur sem þegar hefur náðst með góðri samvinnu lækna, lyfsala og lyfjafræðinga. Þá er með átakinu reynt að hvetja til umræðu milli lækna, lyfjafræðinga og sjúklinga um lyfjameðferð.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvað á auglýsingaherferðin að standa lengi yfir?``
    Svar: Þetta kynningarátak er á lokasprettinum. Fram til þessa hafa móttökur almennt verið mjög góðar og þær litlu mælingar sem tök hefur verið á að koma við eftir svo skamman tíma hafa sýnt að árangur um merkingu lyfseðla hefur aukist og batnað.
    Í fjórða lagi: ,,Hvað er áætlað að þessi auglýsingaherferð muni kosta?``
    Svar: 4 millj. 175 þús. 517 kr. Það er að sönnu há upphæð en þegar litið er til þess að lækkun útgjalda vegna þessarar reglugerðar um R- og S-merkingu lyfja hefur skilað tugum millj. kr. og unnt er að halda því fram að árangur til frekari lækkunar getur numið hundruð millj. kr. er þessi upphæð lág.
    Í fimmta lagi: ,,Í hvaða fjölmiðlum er auglýst?``
    Svar: Morgunblaði, DV, Alþýðublaði, Tímanum, Degi, Vikublaðinu, Eintaki, Bylgjunni, Stöð 2, Rás 1, Rás 2, sjónvarpinu, SVR og Vinnunni, blaði ASÍ.