Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 14:05:54 (6441)


[14:05]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kynni að hafa verið ástæða til að ræða þetta mál af minni hálfu, en ég ætla að spyrja hv. frsm. samgn. og formann nefndarinnar um þrennt. Hið fyrsta má nú teljast athugasemd. Það er í sambandi við nafngiftirnar í III. kafla. Ég ræddi þetta mál ekki við 1. umr. og hef kannski ekki efni á að taka það upp hér, en mér finnst ekki hafa tekist vel til með nafngiftirnar safnvegir og landsvegir. Þetta finnst mér afar langsótt hugtök og undrast að þetta skuli inn komið. Landsvegir, m.a. vegir í þjóðgörðum, og safnvegir, vegir af tilteknum fjölda býla sem tengja einstök býli, stofnanir og fleira við tengivegi eða stofnvegi. Sérkennilegar nafngiftir.
    Síðan er það varðandi 9. og 10. gr. Ég fæ eiginlega ekki botn í þær brtt. sem fyrir liggja við 9. gr. þar sem gert er ráð fyrir, samkvæmt uppsetningu, að það sem er í upphaflegu greininni haldist um einkavegi. Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.
    Svo vil ég spyrja: Hver á að ráða því hver fer um einkavegi, t.d. vegi sem liggja um sumarbústaðahverfi? Eru þeir opnir almennri umferð eða geta sumarbústaðaeigendur lokað þeim fyrir almennri umferð? Hver ákveður þetta?
    Og aðeins varðandi 52. gr., virðulegur forseti, sem er um umferðarmál í kaflanum Viðhald þjóðvega og reglur fyrir umferð. Þar er ákvæði um að Vegagerðin geti bannað umferð ökutækja við tilteknar aðstæður. Hún geti bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið. Ég spyr: Hverjum er ætlað að banna umferð um þjóðvegi þar sem snjóflóðahætta er, þar sem hrun hefur orðið, grjóthrun og annað þess háttar, er það Vegagerðin eða eru það aðrir aðilar sem eiga að hlutast til um það?