Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 14:08:37 (6442)


[14:08]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að um nafngiftir eins og þær sem hér er gerð athugasemd við megi alltaf deila og sé ekki ástæðu til að orðlengja það. En það varð ekki niðurstaða hjá nefndinni að breyta þeim nafngiftum sem fram koma í III. kafla frumvarpsins. Varðandi uppsetningu á 9. gr. þá segir í brtt. nefndarinnar: ,,Í upphafi greinarinnar komi nýr málsliður er orðist svo: Almennir vegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar.``
    Síðan heldur sér sá málsliður sem er í upphaflegri grein og verður síðari málsliður, sem lýtur að þeim vegum sem eru í daglegu tali kallaðir einkavegir. Það hefur verið látið viðgangast eða talið heimilt að sá sem notar einkaveg geti lokað honum.
    Varðandi vegi sem kann að vera tilefni til að loka vegna snjóflóða eða skriðufalla, þá er ekki að því vikið í þessu lagafrumvarpi, heldur eru það almannavarnanefndir sem hafa það yfirleitt á valdi sínu og hygg ég að á því sé engin breyting frá því sem er í gildandi lögum.