Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 14:10:45 (6443)


[14:09]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég undrast nokkuð að hv. 2. þm. Norðurl. v. sem er orðhagur maður skuli ekki hafa velt fyrir sér að breyta heitum í þessum kafla sem ég nefndi.
    Varðandi 9. gr. bendi ég á að þar er gert ráð fyrir að einkavegur geti verið vegur sem kostaður er af opinberum aðilum. Er það þá svo að það komi til greina að sá vegur sem kostaður er af opinberum aðilum sé lokaður almenningi, lokaður almennri umferð? Það er alveg ljóst að þannig er um hnútana búið í þessari löggjöf. Ég held að það þurfi að kveða á um það í lögum hvaða heimildir þeir aðilar sem reka svonefnda einkavegi hafa til að loka fyrir almennri umferð. Ég gæti tíundað mörg dæmi þar sem í

rauninni á ekki að koma til greina að þetta sé hægt. En það getur verið að þá væri eðlileg krafa um einhverja þátttöku fjárhagslega á ríkið af þeim sem reka veginn.
    Varðandi snjóflóð og skriðuföll, ég held að það sé allnokkuð umhendis að þurfa að fara að kveðja til almannavarnanefndir þegar slíkt ástand ríkir sem víða er á þjóðvegum. Ég gæti nefnt marga vegarkafla í mínu kjördæmi þar sem reglubundið skapast þær aðstæður. Mér finnst mjög sérkennilegt að það sé ekki Vegagerðin, sem er á vettvangi og fylgist með málum, sem hafi ekki heimild til þess að loka vegi við slíkar aðstæður. Mér þykir undarlegt að ætla að fara að tengja það beinlínis við almannavarnakerfið í landinu.
    Lítum á Vattarnesskriður. Lítum á Kambaskriður, Hvalnesskriður á Austurlandi og slíka vegi þar sem reglubundið falla snjóflóð og skriður eftir atvikum líka, að það þurfi að vera almannavarnayfirvöld sem loka veginum við slíkar aðstæður finnst mér ekki skynsamlegt. Mér finnst að Vegagerðin eigi að geta lokað vegi líka þegar tvísýnt er um færð, hún haldi opnum þjóðvegi ákveðinn tíma dags t.d. þegar óveður er og lýsir veginn lokaðan að því búnu. Svona heimild finnst mér að þurfi að vera í lögum.